139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

neysluviðmið.

[11:26]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Það er ánægjulegt að velferðarráðherra skuli hafa lagt í þá vegferð að skilgreina neysluviðmið. Nú vitum við hvað tilvera meðaleinstaklings og ýmissa fjölskyldugerða kostar. Við höfum hins vegar ekki fengið nein svör við því hvernig þeir fjölmörgu sem þurfa að draga fram lífið á bótum, t.d. frá félagsþjónustu eða atvinnuleysistryggingum, af elli- eða örorkubótum eða af námslánum, eiga að fara að því.

Eins og velferðarráðherra benti á í máli sínu hafa ýmis viðmið verið í gangi víðs vegar í kerfinu. Námsmenn eiga t.d. nánast að lifa á loftinu, en um leið og þeir eru með börn á framfæri batnar staða þeirra verulega og verður mun betri en þeirra sem þurfa að lifa af lágmarkslaununum. Atvinnulausir foreldrar eru ekki svo heppnir. Viðbótargreiðslur á dag vegna barns duga t.d. ekki fyrir einni skólamáltíð í flestum sveitarfélögum. Ég gæti staðið hér og skammast yfir bágum kjörum atvinnulausra, aldraðra, öryrkja og þeirra sem lægstu launin hafa í allan dag, en ég held að vænlegra sé að fagna þessum áfanga, þessu skrefi, sem er vissulega í áttina og hvetja ráðherrann og okkur öll til að laga ástandið og tryggja öllum ákveðna grunnframfærslu sem hægt er að lifa af. (BirgJ: Heyr, heyr.)