139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

lögreglulög.

405. mál
[11:47]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna mjög þessu frumvarpi og segi nú bara: Loksins, loksins er það komið til 2. umr. Mig langar til að tilkynna það hér að vegna tímaskorts og vegna þess hvenær málið er á dagskrá þingsins get ég ekki tekið þátt í umræðunum en vil lýsa því yfir að þingmenn Framsóknarflokksins standa einhuga að þessu máli.

Lögreglan er hornsteinn samfélagsins, það vitum við, og þess vegna var mjög bagalegt að frumvarpið gat ekki fengið þá flýtimeðferð sem óskað var eftir í gegnum þingið. Til stóð að málið yrði lagt fram sem mál allsherjarnefndar en svo varð ekki vegna þess að einn þingmaður úr ríkisstjórnarflokkunum dró sig út úr því og þá breyttist málið í þingmannamál. Það breytti því samt ekki að þetta átti að geta fengið forgang í þinginu.

En þetta er komið fram og margir bíða eftir því að frumvarpið verði að lögum. 20 einstaklingar eru að fara í Lögregluskólann og er mjög mikilvægt að við sköpum þeim það svigrúm til að lögreglan geti endurnýjað sig. Ekki veitir af.

Mig langar til að biðja formann nefndarinnar, Róbert Marshall, aðeins að fara yfir það í örstuttu andsvari hvernig hafi staðið á því að þetta mál gekk ekki eins hratt í gegn og óskað var eftir. Í upphafi stóð til að Lögregluskólinn hæfi störf 1. febrúar en nú er kominn 17. febrúar og nú stendur til að skólinn taki til starfa 1. mars. Þetta er orðinn mjög knappur tími en allir leggjast á árarnar til að skólinn geti hafist 1. mars. Mig langar til að það komi fram í andsvari formannsins við mig hvers vegna þessi töf hafi orðið á frumvarpinu í þinginu. Þetta er akkúrat dæmi um það þegar allir þingmenn og allir stjórnmálaflokkar á Alþingi taka höndum saman og vinna að brýnum úrlausnarmálum. (Forseti hringir.) Hvers vegna var þá þessi töf?