139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

lögreglulög.

405. mál
[11:51]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Róberti Marshall að ég er einn helsti baráttumaður fyrir því að hér sé stunduð vönduð lagasetning og hef lagt fram frumvarp um lagaskrifstofu Alþingis sem liggur í allsherjarnefnd. Ég hvet formann nefndarinnar til að koma því máli á dagskrá eins og hefur komið fram á tveimur síðustu fundum allsherjarnefndar þar sem ég hef beinlínis farið fram á það að allsherjarnefnd fari að taka það mál fyrir.

Það er greinilega ekki sama hvaða frumvörp fá flýtimeðferð og hvaða frumvörp fara í vandaða meðferð hjá ríkisstjórnarflokkunum. Icesave-samningurinn var ræddur hér í gær og það var heldur betur flýtimeðferð á því lagafrumvarpi, svo mikil flýtimeðferð að t.d. var ekki hægt að eyða tíma í að bíða eftir skýrslu frá Seðlabankanum um skuldastöðu ríkisins. Við skulum ræða þau frumvörp sem hafa farið í gegnum allsherjarnefnd fyrst þingmanninum er svo annt um að hér sé vönduð lagasetning. Stjórnlagaþingið var tekið í miklum flýti í gegnum allsherjarnefnd eftir að óskir bárust frá landskjörstjórn, og ritara landskjörstjórnar sem er lögfræðingur Alþingis, um að setja það í flýtimeðferð. Það var svo mikil flýtimeðferð á því að ég var stödd á pólarráðstefnu á Akureyri þegar ég fékk símtal frá formanni allsherjarnefndar og ég mótmælti þeim flýti. Þá fékk ég það framan í mig að það væri ég sem mundi standa í vegi fyrir því að stjórnlagaþingið gæti orðið að veruleika. Svo getum við talað um ríkisborgararéttarmálið.

Þetta liggur svona fyrir. Ég minni þingmanninn á að þetta er þingmannafrumvarp þannig að það er ekki hægt að kenna ráðuneytinu endilega um að málið hafi komið seint fram og hafi dregist svona. Innanríkisráðuneytið hefur gengið fremst í flokki með það að koma þessu máli í þann farveg að sómi sé að til að þessir 20 einstaklingar geti hafið nám. En nú get ég sagt þessum 20 einstaklingum (Forseti hringir.) að 2. umr. sé hafin og ég vonast (Forseti hringir.) til þess að ekki líði margir dagar þar til 3. umr. fer af stað og að frumvarpið verði þá að lögum.