139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011--2014.

486. mál
[12:17]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem upp í stuttu andsvari í fyrsta lagi til að lýsa ánægju minni með framlagða tillögu um áætlun um þróunarsamvinnu til fjögurra ára og lýsa stuðningi mínum við áhersluatriði hennar og ánægju með hvernig hún er sett upp í faglega kafla og einnig þá þverpólitísku nálgun, mætti kannski segja, sem í henni er.

Mig langar til í fyrra andsvari mínu að inna hæstv. utanríkisráðherra eftir ákveðnu atriði og það varðar samstarf og þátttöku Íslands í alþjóðlegri friðargæslu. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra í hversu mörgum löndum nú eru starfandi Íslendingar á vegum friðargæslunnar, í hvaða löndum og hversu margir. Svo væri líka fróðlegt að vita hversu margir karlar og hversu margar konur eru við störf ef hæstv. ráðherra hefur þær tölur á hraðbergi. Ég læt þetta duga í fyrra andsvari mínu.