139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011--2014.

486. mál
[12:19]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ekki alveg á hraðbergi í hversu mörgum löndum friðargæslan starfar nákvæmlega núna. Hún er sú stofnun sem hefur því miður sætt hvað mestum niðurskurði á umliðnum árum en við höfðum á síðasta ári á fjórða tug fólks sem vann að langtíma- og skammtímaverkefnum fyrir íslensku friðargæsluna. Það er ánægjulegt að greina frá því út frá spurningu hv. þingmanns að á árinu 2011 reiknum við með jafnri kynjaskiptingu í hópi starfandi sérfræðinga íslensku friðargæslunnar erlendis og það verður í fyrsta skipti sem þeim áfanga verður náð. Sama verður líka uppi á teningnum í kosningaeftirliti á vegum friðargæslunnar en reyndar náðum við þeim árangri strax á síðasta ári. Þá sendum við 16 manns héðan af Íslandi til að taka þátt í kosningaeftirliti og það voru átta konur og átta karlar. Á síðasta ári var sem sagt hlutfall kvenna í hópi útsendra sérfræðinga 45% en við gerum ráð fyrir því að á þessu ári verði hlutfallið algerlega jafnt.