139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011--2014.

486. mál
[12:23]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að áherslan á kynjajafnrétti og málefni kvenna, sérstaklega á átakasvæðum, og á þátttöku þeirra í uppbyggingu og lausn deilna er eins og rauður þráður í gegnum bæði þá stefnu sem lýsir af þessari þingsályktunartillögu en að öðru leyti líka í utanríkisstefnu okkar. Við höfum t.d. verið einna fremst þjóða í að halda fram ályktun 1325 um þátttöku kvenna í að byggja upp svæði í kjölfar átaka og sömuleiðis að koma að lausn. Ég hef lagt á það ríka áherslu með formlegu erindisbréfi við alla sendimenn okkar erlendis að þeir beiti sér fyrir því að þau lönd sem þeir hafa forsvar fyrir af Íslands hálfu staðfesti þá ályktun Sameinuðu þjóðanna sem er einmitt 10 ára á þessu ári.

Mér reiknast til út af fyrri spurningu hv. þingmanns að við séum með starfandi friðargæsluliða í fimm löndum núna og þeim hefur farið fækkandi.

Hvað varðar Háskóla Sameinuðu þjóðanna þá er ég algerlega sammála hv. þingmanni um að líkast til er það meðal mikilvægustu framlaga okkar eða hefur verið á síðustu árum. Ég hugsa að á síðustu 30 árum hafi farið í gegnum þessa skóla fast að 700 manns. Er gaman frá því að segja að þegar íslenskir ráðherrar heimsækja þessi lönd gerist það oftar en ekki að þeir hitta fyrir í stjórnunarstöðum á þeim sviðum sem skólarnir taka yfir fólk sem hefur menntast hér á landi. Við höfum reynt að verja þessa starfsemi í niðurskurðinum og það gildir líka um jafnréttisskólann. Hv. þingmaður spurði mig um framhald þess máls. Ja, það væri ekki verra að fá leiðbeiningu frá utanríkismálanefnd í þeim efnum.