139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011--2014.

486. mál
[12:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef sagt það mörgum sinnum áður á þinginu að ég tel það skipta máli fyrir litla þjóð að sem breiðust samstaða ríki um utanríkisstefnu hennar. Eins og ég sagði í framsögu minni er þróunarsamvinnan mjög ríkur þáttur í utanríkisstefnunni. Þess vegna fagna ég því að formaður Sjálfstæðisflokksins tekur svona jákvætt undir meginmarkmiðin í þessari tillögu. Sömuleiðis vegna þess að ég veit að hv. þingmaður ber meira en þokkalegt skyn á efnahagsmál fagna ég því að hann telur ekki of í lagt með þessa áætlun. Eins og ég sagði hreinskilnislega í andsvari við hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur staldraði ég mjög vel við það og velti fyrir mér hvort þetta væri raunhæft markmið. Ég dró þá ályktun að svo væri og mér þykir gott að heyra hjá hv. þingmanni og formanni eins af stærstu flokkunum að hann telur svo vera. Ég tel jákvætt að það sé þessi samhljómur millum flokka ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu, a.m.k. leiðtoga hennar, um þetta mál.

Mér finnst líka mjög jákvætt að heyra viðhorfin frá hv. þingmanni gagnvart þróunarsamvinnu af hálfu okkar. Ég er honum svo algjörlega sammála um að menn þurfi auðvitað að standa í ístaðinu og skoða mjög vel og árangursmæla. Eins og hv. þingmaður heyrði í framsögu minni var það eitt af þeim þremur tækjum sem ég nefndi sem menn þyrftu að ástunda, þ.e. árangursmælingar.

Ég held að því fé sem við höfum varið í þennan málaflokk hafi verið giska vel varið. Ég held að hann skipti máli. Við höfum einbeitt okkur að fátækustu ríkjum heims og fátækustu svæðunum innan þeirra. En það má alltaf gera betur og ég er sammála hv. þingmanni um að utanríkismálanefnd mundi (Forseti hringir.) gera margt vitlausara en að senda fulltrúa sína á þessi svæði til að skoða og meta.