139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011--2014.

486. mál
[12:46]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi markmiðið um 0,7% er það auðvitað ekki nýtt. Það hefur lifað margar ríkisstjórnir, en það skiptir máli að menn reyni að tímasetja það hvenær þeir ætla að uppfylla það. Ég tel ágætlega raunhæft að horfa til næstu tíu ára í því efni.

Fyrst ráðherrann kemur inn á það hvaða máli aðstoð okkar hefur skipt get ég út af fyrir sig tekið undir það. Ég hef engar efasemdir um að hún hafi skipt máli og ég hafði tækifæri til þess á sínum tíma að fylgjast með því sem var að gerast í Níkaragva á vettvangi þegar við fórum tveir þingmenn úr utanríkismálanefnd þangað á vegum Sameinuðu þjóðanna. Það var augljóst að þar var unnið af mikilli þekkingu og eftir góðu skipulagi og alveg ótvírætt að þar var t.d. miðlað þekkingu sem skipti miklu máli fyrir heimamenn. Ég tel að við á þinginu eigum að leggja okkur meira fram um að mæla þennan árangur og gera kröfu til stjórnvalda um að sýna fram á að árangrinum sé náð, það er mín reynsla af störfum mínum í utanríkismálanefnd. Það getum við t.d. gert með heildarúttekt á því sem gert hefur verið í fortíðinni og dregið lærdóm af því til að byggja undir umræðu eins og þá sem hér á sér stað.