139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011--2014.

486. mál
[12:58]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og kom fram hjá mér sagði ég að ég teldi að það kynni vel að vera að þetta væri einmitt raunhæf áætlun þó að ég hefði gjarnan viljað sjá hana metnaðarfyllri. Það verða menn auðvitað að fara yfir og skoða hvað er raunsætt. Þess vegna nefndi ég það sem ákveðna hugmynd að vera með einhvers konar millitíma — þetta er ansi langt stökk úr 0,23% upp í 0,7%, án þess að það sé einhvern veginn í gadda slegið eins og hæstv. utanríkisráðherra hefði áreiðanlega orðað það — að einhvern tíma á þessu tímabili setji menn sér viðmið hvenær t.d. 0,4% marki væri náð eða 0,5% marki eða eitthvað þess háttar. Þetta er eitthvað sem við skoðum.

Síðan varðandi framlögin og þegar ráðherrann segir að þessi málaflokkur hafi orðið fyrir býsna miklum niðurskurði, það auðvitað alveg rétt og ég held að við eigum bara að segja það eins og er, að á niðurskurðartímum eins og við höfum lent í er auðveldara að skera niður hjá þeim sem eru fjær. Þannig er raunveruleikinn en það er mjög miður því að við erum samt sem áður vel stæð þjóð sem á að standa við skuldbindingar á alþjóðavettvangi ekki síst gagnvart þeim sem minnst hafa og helst þurfa á aðstoð að halda. Iðnríkin, vestræn ríki bera ríkar skyldur og bera ríka ábyrgð í þessu efni. Við eigum auðvitað að standa undir því og ég er sammála hæstv. ráðherra um að ekki er hægt að ganga lengra í þeim efnum en gert hefur verið.

Mér finnst sjálfsagt að við ræðum þetta og förum betur yfir þetta. Það eru áreiðanlega góð rök á bak við þessa áætlun og við fáum þá að heyra þau líka. Síðan getum við velt því fyrir okkur hvort á þessu á að gera einhverjar breytingar eða hafa það eins og hér er lagt til.