139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

upplýsingalög.

381. mál
[14:10]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs í þessu máli til að fagna því sérstaklega að upplýsingalögin hafi verið tekin til gagngerrar endurskoðunar. Afrakstur þeirrar vinnu sjáum við í frumvarpinu sem hæstv. forsætisráðherra kynnti áðan. Það eru nokkur atriði sem ég vil geta sérstaklega um í frumvarpinu áður en það kemur til umfjöllunar í hv. allsherjarnefnd, og þá kannski fyrst og fremst þau nýmæli sem felast í frumvarpinu. Þó að upplýsingalögin frá 1997 hafi vissulega verið þörf og góð viðbót, og sérstaklega kannski gott vinnutæki fyrir þá sem hafa starfað í upplýsingageiranum, þ.e. í fjölmiðlum, og við það að koma á framfæri upplýsingum um það sem ríkið aðhefst, þá eru þau engu að síður barn síns tíma og löngu kominn tími til að ráðast í endurbætur á þeim. Sérstaklega með tilliti til þess hversu mikið þetta umhverfi hefur breyst, þ.e. með tækniframförum er orðið mun einfaldara fyrir ríkið, sveitarfélög og opinbera aðila að halda utan um starfsemi sína með rafrænum hætti, vinnugögn, skýrslur og skjöl og koma því á framfæri við borgarana.

Það er að sjálfsögðu þannig að um er að ræða aðila sem eru að starfa í þágu almennings, stofnanir sem eru settar saman af samfélaginu til að gegna ákveðnu hlutverki og það er réttur almennings, og á að vera réttur almennings, að hafa aðgang að öllu því sem þar er sýslað um og vita um allt það sem þar er verið að sýsla.

Ég vil geta þess sérstaklega, og fagna því sérstaklega, að í frumvarpinu er orðað það meginmarkmið laganna að tryggja gegnsæi í stjórnsýslunni og við meðferð opinberra hagsmuna. Tilgangurinn er sá að styrkja upplýsingarétt og tjáningarfrelsi, þátttöku almennings í lýðræðissamfélagi, aðhald fjölmiðla og almennings með stjórnvöldum, möguleika fjölmiðla til að miðla upplýsingum um opinber málefni og traust almennings á stjórnsýslunni. Sambærilegt ákvæði er ekki að finna í gildandi lögum eins og segir í frumvarpinu þótt ljóst sé að markmið upplýsingalaga hafi í framkvæmd haft mikla þýðingu við túlkun þeirra.

Í öðru lagi er nú verið að leggja það til að gildissvið upplýsingalaga verði víkkað með þeim hætti að þau taki til fleiri aðila en nú. Þannig taka með þessum breytingum upplýsingalög einnig til lögaðila eða fyrirtækja eða stofnana sem eru að 75% eða meira í eigu hins opinbera. Þetta er gríðarlega mikilvæg breyting og getur haft miklar og jákvæðar afleiðingar í för með sér fyrir opna og upplýsta umræðu. Sá sem hér stendur reyndi t.d. oft, í störfum sínum sem fjölmiðlamaður, að afla upplýsinga um fyrirtækið Símann þegar því hafði verið breytt og það einkavætt en hafði áður verið í eigu hins opinbera. Ekki var undir neinum kringumstæðum hægt að nálgast upplýsingar um þá eign almennings sem er í sjálfu sér alveg með ólíkindum.

Það ber að geta þess líka að þetta felur ekki sjálfkrafa í sér að allar upplýsingar um lögaðila verði aðgengilegar almenningi. Sjálfsagt er áfram byggt á þeirri reglu að vegna samkeppnishagsmuna sé heimilt að undanþiggja ýmsar upplýsingar sem vonlegt er.

Lagðar eru til breytingar á takmörkunum á upplýsingarétti samkvæmt gildandi lögum og er sérstaklega getið um það í skýringum við 6., 7. og 8. gr. Að langstærstum hluta eru þær takmarkanir sem lagðar eru til á upplýsingarétti almennings óbreyttar frá gildandi lögum. Það er verið að fjalla sérstaklega um ítarlegri skilgreiningar á því hvaða gögn skuli flokkast til vinnugagna. Ég vænti þess að við í allsherjarnefnd munum fara mjög gaumgæfilega ofan í þessar greinar. Það er hins vegar til mikilla bóta að skorið sé úr um hvað það er nákvæmlega sem eigi að teljast til vinnugagna, skilgreiningin á því hefur verið mikið á reiki og gott að hafa þetta kristaltært í lögunum þannig að enginn þurfi að velkjast í vafa um það.

Sá sem hér stendur hefur alla tíð verið mikill talsmaður þess að upplýsingar um það hvað ríkið sé að fást við séu eins aðgengilegar og nokkur möguleiki er á. Ég mundi jafnvel vilja ganga svo langt að lagður yrði fram listi um þau mál sem verið er að vinna hverju sinni þannig að alltaf sé til listi yfir mál sem stjórnvöld hafa eða hafa haft til meðferðar. Hugsanlega er það of langt gengið. Hugsanlega er það einhver framtíðarsýn eða framtíðarmúsík sem ómögulegt er að uppfylla enda er ekki gert ráð fyrir því í frumvarpinu að svo langt sé gengið. En það er mín skoðun að ganga eigi eins langt í þessum efnum og nokkur kostur er. Auðvitað hefur ég kynnst því og haft skilning á því í störfum mínum sem fjölmiðlamaður, og á þeim tíma sem ég hef starfað innan hinnar íslensku stjórnsýslu, að upp geta komið þau tilfelli að verið sé að vinna með viðkvæmar upplýsingar sem ekki er hægt að hafa aðgengilegar almenningi á þeim tímapunkti. En þegar mál eru gengin í gegn er verið að vinna í þágu almennings og almenningur á að hafa aðgang að öllum gögnum sem varða vinnu í hans þágu.

Breyting er kynnt til sögunnar, og ég tel hana ákaflega mikilvæga, á því hvernig það er tilgreint nákvæmlega, í beiðni þess sem óskar eftir upplýsingum, hvaða gögn það eru sem hann óskar eftir. Nú er sú skylda lögð á stjórnvöld að finna það mál sem efnislega fellur undir það málefni sem tilgreint er í beiðni um aðgang að gögnum. Það er mikilvæg breyting vegna þess að fjölmiðlamönnum hefur verið neitað um upplýsingar sem þeir hafa óskað eftir á grundvelli þess að það sé ekki tilgreint nákvæmlega hvaða gögn það eru sem óskað er eftir. Þetta er náttúrlega óþolandi kerfi og gengur ekki þannig að hér er mjög jákvæð breyting á ferðinni sem ég held að sé til mikilla bóta. Sé um fleiri en eitt mál að ræða sem fellur undir viðkomandi málefni er gert ráð fyrir að stjórnvöld sendi beiðanda eftir atvikum lista yfir þau mál og biðji hann að tilgreina nánar það mál eða þau mál sem hann óskar eftir aðgangi að.

Ég ætla ekki að fara dýpra ofan í það mál sem hér er lagt fram, einungis lýsa í grófum dráttum þeim sjónarmiðum sem ég hef í aðdraganda þess að hefja vinnu við þetta mál í nefnd. Ég fagna því sérstaklega að þessari endurskoðun skuli vera lokið og sérstaklega hvernig hún var unnin af hálfu forsætisráðuneytisins. Ég tel það opna vinnulag sem þar var viðhaft og þann anda sem einkennt hefur forsætisráðuneyti hæstv. ráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, þegar kemur að aðgengi að upplýsingum, til mikillar fyrirmyndar. Það hvernig þetta mál var kynnt á vef Stjórnarráðsins og sá möguleiki sem hagsmunasamtök og almenningur allur hafði til að koma að vinnunni sjálfri áður en málið var lagt fram á Alþingi er til mikillar fyrirmyndar og ber að lofa sérstaklega.