139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

upplýsingalög.

381. mál
[14:21]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil í lokin þakka þær umræður sem hér hafa farið fram og þær athugasemdir sem settar voru fram við frumvarpið. Ég tel að athugasemdirnar séu allar þess eðlis að þær eigi að skoða og þær verða sannarlega skoðaðar í nefnd og við munum líka fara yfir þær í ráðuneytinu. Mér finnst umræðan gefa tilefni til að ætla að ágæt samstaða sé um þetta mál þó að menn setji fyrirvara við ákveðnar greinar eins og gengur og gerist, t.d. þá grein sem hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi. Ég tel, og vísa til orða síðasta ræðumanns, að þetta sé ein af mikilvægustu greinunum sem menn munu fara yfir. Ég held að hún feli það einungis í sér að endurspegla betur vinnulag í málum sem ráðuneytin vinna saman, að því leyti sem ráðuneytið taldi að þyrfti að afmarka það betur. Þarna eru líka ítarlegar upplýsingar um hvað kallast vinnugögn sem er ákaflega mikilvægt.

Ég get út af fyrir sig verið sammála orðum síðasta ræðumanns um að við eigum að hafa upplýsingalögin eins ítarleg og nokkur kostur er og ganga þar eins lagt og mögulegt er. Þó verður þar að vera ákveðinn rammi til að vinna eftir vegna þess að í upplýsingalögum er líka hægt að ganga of langt eins og á mörgum öðrum sviðum. Ég held að tilgreiningarreglan sem hv. þingmaður nefndi sé ákaflega mikilvæg, áður þurfti að benda nákvæmlega á hvaða gögnum í ákveðnu máli væri verið að leita eftir, t.d. fjölmiðlamenn, en eins og þetta er í frumvarpinu nú er þetta miklu eðlilegra og opnara.

Hv. þm. Birgir Ármannsson hafði áhyggjur af þeirri opnun sem er í frumvarpinu á upplýsingar um laun og að vissu marki kjör opinberra starfsmanna, og vissulega er einnig verið að víkka gildissvið laganna. Opnað er fyrir að fyrirtæki í opinberri eigu að 75% hluta falli þarna undir með ákveðnum takmörkunum og að upplýsa megi um laun stjórnenda. Ég geri mér grein fyrir því að ýmsir opinberir starfsmenn hafa af þessu áhyggjur en ég held þó að þetta sé eðlilegt. Þetta er með þessum hætti í Svíþjóð til að mynda. Ég held að þetta ákvæði hjálpi mjög til við að vinna á launamun milli kynjanna vegna þess að ef um er að ræða einhvern launamun þar sem laun ættu að vera sambærileg þarf fullur rökstuðningur að vera fyrir hendi.

Að síðustu vil ég nefna það sem hv. 7. þm. Norðvesturkjördæmis, Ólína Þorvarðardóttir, nefndi. Hún gerði þá athugasemd að í frumvarpinu væri fyrst og fremst um að ræða viðbragðsskyldu stjórnvalda en ekki frumkvæðisskyldu. Ég skil alveg hvað fyrir hv. þingmanni vakir í þessu. Ég veit ekki til þess að ákveðna frumkvæðisskyldu í þessum efnum sé neins staðar að finna í öðrum upplýsingalögum landa sem við berum okkur saman. Hv. þingmaður nefndi sérstaklega þær aðstæður ef hættuástand skapaðist. Við vitum auðvitað hvað þingmaðurinn meinar með því. Í frumvarpinu er ákveðin heimild eða vísir að heimild til að veita upplýsingar af því tagi sem hv. þingmaður nefnir. Þá erum við kannski að tala um 13. gr. frumvarpsins um opinbera birtingu upplýsinga sem mætti nýta í þessu sambandi. En fyrst og fremst hlýtur sú siðferðilega skylda að hvíla á stjórnvöldum að koma upplýsingum af þessu tagi á framfæri við almenning og leyna ekki mikilvægum upplýsingum enda séu stjórnvöld ekki bundin trúnaði af lögmætum ástæðum.

Eðlilegt er að vekja á þessu athygli. Þetta verður örugglega eitt af þeim atriðum sem nefndin mun fjalla í meðferð sinni á málinu. Ég vona að hún fari ítarlega yfir frumvarpið og það geti orðið að lögum áður en þingi lýkur.