139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut.

380. mál
[14:27]
Horfa

Frsm. menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir skýrslu menntamálanefndar um greinargerð Ríkisendurskoðunar sem fjallar um framkvæmd þjónustusamnings menntamálaráðuneytisins við Menntaskólann Hraðbraut. Ég mæli sömuleiðis fyrir niðurstöðum meiri hluta nefndarinnar en hann skipa fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar í menntamálanefnd.

Ég vil fyrst segja að hér er á ferð dapurlegt mál sem fjallar um afar ámælisverða fjármálaumsýslu stjórnanda Menntaskólans Hraðbrautar, óeðlilegar arðgreiðslur til eiganda skólans, ofgreiðslu ríkisframlaga ár eftir ár, lánveitingar til ótengdrar starfsemi en tengdra aðila sem brutu gegn ákvæðum þjónustusamnings við ríkið og svo mætti áfram telja. Ábyrgð menntamálaráðuneytisins á þessum tíma er sömuleiðis mikil. Ráðuneytið vanrækti eftirlitshlutverk sitt með framkvæmd þjónustusamningsins fram til ársins 2008 og gerði samning um eftirgjöf skulda skólans við ríkissjóð án þess að hafa til þess nokkra heimild í lögum.

Forseti Alþingis fór þess á leit við menntamálanefnd, með bréfi 7. október sl., að hún tæki til umfjöllunar umrædda skýrslu. Nefndin fjallaði um skýrsluna á 12 fundum sínum á tímabilinu 19. október til 10. desember og kallaði til sín 13 gesti.

Ríkisendurskoðun gagnrýnir ýmis atriði sem tengjast tilurð og framkvæmd þjónustusamningsins sem undirritaður var í nóvember 2001 og endurnýjaður árið 2007. Ríkisendurskoðun vekur athygli á því að ráðuneytið hafi ekki látið vinna þarfagreiningu eða efnt til útboðs um verkefnið þrátt fyrir að kveðið sé á um það í reglum og leiðbeiningum um gerð þjónustusamninga. Það kemur fram í greinargerðinni að frumkvæðið að gerð samningsins kom frá forsvarsmönnum skólans og virðist ljóst að skólinn hafi notið pólitísks velvilja yfirvalda menntamála, enda féll starfsemi hans vel að þeirri einkavæðingarstefnu sem var ráðandi í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991, en eins menn þekkja stýrði flokkurinn menntamálaráðuneytinu samfleytt í 17 ár frá þeim tíma. Maður hlýtur hins vegar að spyrja sig hvort sá pólitíski velvilji hafi byrgt mönnum í ráðuneytinu sýn á þá ábyrgðarlausu meðferð opinbers fjár sem birtist okkur í greinargerð Ríkisendurskoðunar.

Fjárveitingar til skólans voru greiddar í samræmi við áætlun skólans um nemendafjölda. Samkvæmt 5. gr. þjónustusamningsins átti að fara fram uppgjör á hverju ári þar sem áætlun um nemendafjölda og ríkisframlag yrði leiðrétt út frá rauntölum. Slíkt uppgjör fór aldrei fram á þessu tímabili þrátt fyrir að skólinn og ráðuneytið hafi vitað, samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar, að nemendafjöldi við skólann væri ár eftir ár lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir og skólinn hafi því ítrekað fengið mun hærri greiðslur en hann átti rétt á samkvæmt samningi. Ríkisendurskoðun gagnrýnir ráðuneytið fyrir að framfylgja ekki skýru ákvæði 5. gr. samningsins og telur að ráðuneytið hafi ekki haft stoð í lögum til að gefa eftir skuld skólans við ríkissjóð.

Meiri hluti nefndarinnar er sammála þessu mati Ríkisendurskoðunar. Meiri hlutinn fellst þó á það mat ráðuneytisins að rétt sé að taka tillit til þess við uppgjör á skuld Hraðbrautar ehf., rekstraraðila skólans, vegna tímabilsins 2004–2006, að ekki var felld niður 34 millj. kr. skuld vegna ofgreiddra nemendaframlaga á árinu 2006. Niðurfelldar skuldir ráðuneytisins við Hraðbraut ehf. vegna tímabilsins hafi því í reynd numið rúmum 92 millj. kr. en ekki 126 milljónum eins og segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Reyndar er rétt að það komi fram að mjög deildar meiningar eru milli ráðuneytisins og stjórnenda Menntaskólans Hraðbrautar um upphæð þessarar skuldar skólans við ríkissjóð og kemur fram í gögnum ráðuneytisins að það sé háð mismunandi uppgjörsaðferðum hvort skuldin sé 30,4 millj. kr. eða allt upp í 214 millj. kr.

Það kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að Hraðbraut ehf. hafi greitt 82 millj. kr. í arð til eigenda sinna árin 2003–2009. Ríkisendurskoðun tekur fram að hún telji að það komi hvorki fram í þjónustusamningi né banni lög að slíkar arðgreiðslur eigi sér stað. Hins vegar verði að halda því fram og halda því til haga að skólinn var í reynd rekinn með halla á þessu tímabili ef tillit er tekið til ofgreiddra framlaga úr ríkissjóði og því ekkert tilefni til að greiða eigendum út arð.

Í skýrslu menntamálanefndar kemur fram að eigendur skólans hafi einnig greitt sér umtalsverðan arð út úr einkahlutafélaginu Faxafen ehf., en það félag er í eigu sömu aðila og hefur leigt Hraðbraut ehf. skólahúsnæði. Frá því að það félag var stofnað hafa arðgreiðslur úr því numið 105 millj. kr. samkvæmt ársreikningum þess félags.

Ámælisverð fjármálaumsýsla stofnenda skólans fólst ekki aðeins í hæpnum arðgreiðslum og ofgreiðslum úr ríkissjóði, heldur einnig lánveitingum til tengdra aðila sem voru í beinni andstöðu við þjónustusamninginn við ráðuneytið.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er bent á að í 7. gr. þjónustusamningsins sé kveðið á um að fjárreiðum og reikningshaldi skólans vegna hins umsamda verkefnis skuli halda aðgreindum frá öðru bókhaldi og eignum skólans. Fyrir liggur að fjárhæð lána til fyrrverandi eigenda Hraðbrautar ehf. hafi numið 50 millj. kr. í árslok 2009. Telur Ríkisendurskoðun slíkar lánveitingar óæskilegar og í andstöðu við framangreinda 7. gr. samningsins þar sem slíkar lánveitingar tengdust ekki rekstri skólans.

Niðurstaða Ríkisendurskoðunar er að fjárhagslegar forsendur fyrir áframhaldandi rekstri skólans séu afar hæpnar að óbreyttum aðstæðum. Meiri hlutinn áréttar þá ályktun Ríkisendurskoðunar og bendir á að allur bókfærður rekstrarafgangur áranna 2003–2008 var til kominn vegna ofgreiðslna úr ríkissjóði. Þær námu 192 millj. kr. á tímabilinu á sama tíma og heildarafkoma tímabilsins samkvæmt ársreikningum skólans er jákvæð um 86 millj. kr. Sérstaka athygli vekur að nær 95% þessa rekstrarafgangs voru greidd út til eigenda í formi arðs.

Virðulegi forseti. Víkur nú sögunni frá fjárhagslegum málefnum skólans og að skólastarfinu sjálfu. Nefndin taldi mikilvægt að fjalla einnig um innra starf skólans til þess að öðlast heildarmynd af því starfi sem þar fer fram. Þetta tel ég að hafi skýrt málið til að greina hvort finna megi því einhvern stað að umrædd fjármálaumsýsla hafi að einhverju leyti haft áhrif á faglegt starf í skólanum.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið lét gera úttekt á faglegu starfi skólans vorið 2010. Þar kemur fram að sérstaða hans felist annars vegar í tveggja ára námi til stúdentsprófs og hins vegar kennsluskipulagi í lotum. Skólinn geri miklar kröfur til nemenda um ástundun og aðhald og nemendur séu mjög ánægðir með skólastarfið og líði vel innan veggja skólans. Kennarar séu mjög metnaðarfullir, skipulag kennslu skýrt og skyldur nemenda ljósar. Þó er gagnrýnt að samskipti skólastjóra og annarra starfsmanna hafi verið brotakennd og mikil óánægja meðal starfsmanna með stjórn skólans og miklar fjarvistir skólastjóra. Telja sumir kennarar að skólann skorti faglega forustu til að geta þróast sem skyldi. Einstakir kennarar gagnrýna stjórnhætti skólastjórans sem einkennist af einhliða ákvarðanatöku án aðkomu kennara að stjórn skólans. Fram kemur að ekkert eiginlegt þróunarstarf eigi sér stað í skólanum, gæðastjórnunarkerfi sé enn í mótun og engin vinna sé unnin við þróun nýrrar námskrár. Kemur fram í úttektinni að hugmyndalegur ágreiningur sé mikill milli stjórnenda skólans annars vegar og kennara hans hins vegar hvað varðar stefnu skólans og helsta markhóp. Þess má geta að aðstoðarskólastjóri menntaskólans sagði starfi sínu lausu síðastliðið vor vegna samstarfsörðugleika við skólastjóra skólans. Í niðurlagi úttektar ráðuneytisins segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Veikasti þáttur skólans og sá fyrirferðarmesti nú er stjórn skólans og samskipti skólastjóra og hluta starfsmanna. Þau eru það slæm að þau hljóta að setja mark sitt á allt faglegt starf skólans og við það verður ekki búið.“

Stjórnendur skólans fullyrða að gæði þess náms sem boðið er í Menntaskólanum Hraðbraut séu mikil og árangur útskriftarnema góður þegar í háskóla er komið. Mennta- og menningarmálaráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá Háskóla Íslands um árangur nemenda sem útskrifast hafa úr Menntaskólanum Hraðbraut og kom fram í gögnum Háskóla Íslands að meðaleinkunn útskriftarnema úr skólanum hefur verið allmiklu lægri en meðaleinkunn annarra nemenda í Háskóla Íslands þrjú undanfarin skólaár.

Í umfjöllun nefndarinnar kom fram að miklar deilur urðu milli kennara og skólastjóra Menntaskólans Hraðbrautar um þá fyrirætlan kennara að gerast aðilar að Kennarasambandi Íslands. Í máli fyrrverandi kennara skólans sem komu á fund nefndarinnar kom fram að athugun hefði leitt í ljós að kennarar skólans hefðu fengið greidd laun sem væru umtalsvert lægri en laun sambærilegra kennara innan Kennarasambands Íslands miðað við vinnuframlag. Meiri hlutinn gagnrýnir sérstaklega að engir kjarasamningar hafa verið gerðir við kennara Menntaskólans Hraðbrautar og liggur fyrir að kennarar hafa ekki fengið álagsgreiðslur vegna þess aukna vinnuframlags sem leiðir af hraðferðarfyrirkomulagi kennslunnar.

Meiri hlutinn vekur sérstaka athygli á því að svo virðist sem óvenjulágu hlutfalli af rekstrarútgjöldum skólans sé varið í laun og launatengd gjöld borið saman við það sem tíðkast í opinberum framhaldsskólum. Samkvæmt ársreikningi Hraðbrautar ehf. fyrir 2007 var launakostnaður 38% af rekstrarútgjöldum skólans. Í framhaldsskólum á vegum ríkisins er hlutfall launakostnaðar að jafnaði tvöfalt hærra eða um 75%. Það vekur jafnframt athygli í umræddum ársreikningi að liðurinn skrifstofu- og annar rekstrarkostnaður er langstærsti liður rekstrargjalda eða 107 millj. kr., 58% af rekstrargjöldum. Þessi liður er ekki sundurliðaður í ársreikningi en að líkum fellur þar húsnæðiskostnaður undir, en eins og fram kom fyrr í máli mínu leigir skólinn húsnæði af einkahlutafélaginu Faxafen sem er í eigu skólastjóra Hraðbrautar og eiginkonu hans.

Af skólastarfinu sjálfu vil ég nefna að meiri hlutinn bendir sérstaklega á að upphaflegur þjónustusamningur menntamálaráðuneytisins og Hraðbrautar ehf. byggðist m.a. á þeirri forsendu að skólinn mundi sérstaklega þjóna bráðgerum nemendum á aldrinum 16–18 ára. Þessi forsenda er skýrt útfærð í fylgiskjali við samninginn þar sem segir, með leyfi forseta:

„Hraðbraut er framhaldsskóli sem mun bjóða afburða nemendum að ljúka stúdentsprófi á tveimur árum í stað fjögurra eins og almennt er boðið upp á í öðrum framhaldsskólum.“

Ljóst er að þessi forsenda þjónustusamningsins hefur ekki staðist nema að hluta því að meiri hluti núverandi nemenda skólans uppfyllir ekki þessi skilyrði. Samkvæmt tölum frá Menntaskólanum Hraðbraut voru 196 nemendur skráðir við skólann á haustönn 2010, þar af 115 nýnemar og af þeim var meiri hlutinn eða 60% eldri en 18 ára. Við innritun haustið 2009, ári áður, voru nemendur eldri en 18 ára hins vegar 40% innritaðra nemenda og hafði því fjölgað um helming á einu ári.

Ég tel rétt að hafa áhyggjur af þessari þróun því að mikilvæg forsenda þess að skólastarf sem byggist á hraðferð skili árangri er að nemendur séu gæddir þeim hæfileikum og kostum sem gera þeim kleift að mæta þeim miklu kröfum sem fylgja tvöfalt hraðari yfirferð en tíðkast í opinberum framhaldsskólum. Að öðrum kosti felur hraðferðin í sér gengisfellingu á gæðum þeirrar menntunar sem nemendur sækja sér í skólanum og þá er grundvellinum kippt undan starfseminni.

Niðurstaða menntamálanefndar er að menntamálaráðuneytið hafi á árunum 2004–2007 brugðist í grundvallaratriðum eftirlitsskyldu sinni með framkvæmd þjónustusamningsins við Menntaskólann Hraðbraut. Meiri hlutinn telur að ekki hafi verið lagastoð fyrir þeirri ákvörðun þáverandi menntamálaráðherra að fella niður 92 millj. kr. skuld skólans við ríkissjóð þegar þjónustusamningur ráðuneytisins og Hraðbrautar ehf. var endurnýjaður árið 2007. Meiri hlutinn gagnrýnir sömuleiðis að á sama tíma og virkt eftirlit er með því gagnvart opinberum skólum að ríkisframlög fylgi raunverulegum nemendafjölda hafi ráðuneytið vanrækt að fylgja eftir hliðstæðum ákvæðum þjónustusamningsins um rekstur umrædds einkaskóla. Telur meiri hlutinn mikilvægt að fullt samræmi sé í eftirfylgni ráðuneytisins með ráðstöfun opinbers fjár í menntakerfinu, hvort sem um opinbera skóla eða einkaskóla er að ræða.

Þá áréttar meiri hlutinn mikilvægi þess að eftirlit og eftirfylgni ráðuneytisins með þjónustusamningum verði eflt til muna. Meiri hlutinn átelur að ráðuneytið skuli hafa undirritað samning við einn lögaðila en síðan greitt framlög úr ríkissjóði til annars lögaðila í eigu sömu einstaklinga.

Það er afstaða meiri hlutans að skýrsla Ríkisendurskoðunar sé þungur áfellisdómur yfir fjármálaumsýslu og rekstrarháttum eigenda Hraðbrautar ehf. og stjórnenda Menntaskólans Hraðbrautar. Meðferð þeirra á fjárframlögum úr ríkissjóði verður að teljast sérstaklega ámælisverð þegar höfð er hliðsjón af þeim arðgreiðslum, lánveitingum og ofgreiðslum fjármuna sem ég hef hér rakið. Leggur meiri hlutinn ríka áherslu á það að Hraðbraut ehf. beri að endurgreiða allar ofgreiðslur úr ríkissjóði að fullu. Það er skoðun meiri hlutans að ekki sé fullnægjandi að skuld skólans við ríkið verði eingöngu greidd til baka með því að kenna fleiri nemendum en greitt er fyrir, sérstaklega þegar haft er í huga að fjölmargir opinberir framhaldsskólar á landinu öllu kenna nú mun fleiri nemendum en þeir fá greitt fyrir.

Meiri hlutinn telur að fullyrðingar um undirborganir kennara Menntaskólans Hraðbrautar ehf. kalli á frekari skoðun því ekki geti talist eðlilegt að launagreiðslur til kennara séu þar umtalsvert lægri en kjarasamningar á markaðnum gera ráð fyrir, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess mikla vinnuálags sem kennarar skólans þurfa að búa við.

Núgildandi þjónustusamningur mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Hraðbrautar ehf. fellur úr gildi 31. júlí 2011. Í ljósi þeirrar alvarlegu gagnrýni sem fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar á eigendur skólans vegna meðferðar þeirra á opinberu fé mælir meiri hluti menntamálanefndar ekki með því að þjónustusamningur ráðuneytisins við núverandi eigendur Hraðbrautar ehf. verði endurnýjaður. Þá telur meiri hlutinn, í ljósi ályktana Ríkisendurskoðunar, miklum vafa undirorpið að núverandi rekstrarfyrirkomulag skólans fái staðist til framtíðar.

Hins vegar leggur meiri hlutinn ríka áherslu á að hagsmunir núverandi nemenda skólans verði tryggðir og skorar á mennta- og menningarmálaráðuneytið að leita allra leiða til að tryggja að þeir nemendur sem leggja stund á nám í skólanum eigi áfram kost á sambærilegu námi á næsta skólaári sem geri þeim kleift að ljúka námi til stúdentsprófs á tilsettum tíma.

Meiri hluti nefndarinnar áréttar að skýrsla Ríkisendurskoðunar er fyrst og fremst þungur áfellisdómur yfir fjármálaumsýslu eigenda Menntaskólans Hraðbrautar ehf. en ekki því faglega starfi sem unnið hefur verið innan skólans. Ég tel að sá valkostur sem Menntaskólinn Hraðbraut hefur boðið nemendum eigi fullan rétt á sér og það er von meiri hlutans að sambærilegt úrræði muni áfram standa hæfileikaríkum framhaldsskólanemum til boða. Meiri hlutinn leggur áherslu á að skýr lærdómur verði dreginn af því máli sem hér er til umfjöllunar og í þjónustusamningum mennta- og menningarmálaráðuneytisins við einkaskóla í framtíðinni verði settar afgerandi skorður við arðgreiðslum til eigenda og lánveitingum til tengdra aðila. Sérstaklega þarf að tryggja að forsvarsmenn einkaskóla geti ekki nýtt ríkisframlög, skattfé almennings, til að skara eld að eigin köku eins og þetta mál ber sorglega vitni um. Jafnframt verði tryggt að ekki sé brotinn réttur á fagstéttum viðkomandi skóla hvað varðar starfskjör og önnur réttindi.

Meiri hlutinn leggur sömuleiðis til að upplýsingar sem fram koma í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd þjónustusamninga verði notaðar til að móta reglur um rekstrarform í tengslum við gerð þjónustusamninga við menntastofnanir, endurbæta innihald slíkra samninga og eftirlitsferla með framkvæmd þeirra.

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í upphafi máls míns var meiri hluti nefndarinnar skipaður sjö fulltrúum Samfylkingar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar en tveir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins skiluðu minnihlutaáliti. Nefndin skilaði þó sameiginlegum niðurstöðum þess efnis að þessi skýrsla Ríkisendurskoðunar um Menntaskólann Hraðbraut kalli á úttekt á framkvæmd allra þjónustusamninga ráðuneytisins um rekstur einkaskóla og þar komi fram upplýsingar um hvort og í hve miklum mæli ofgreiðslur úr ríkissjóði hafi viðgengist án þess að til endurgreiðslu hafi komið og hver sé samanburður við opinberu framhaldsskólana í þessu efni. Ég ritaði bréf fyrir hönd nefndarinnar til forseta Alþingis í desember þegar skýrslan var lögð fram þar sem óskað var eftir slíkri heildarúttekt á vegum Ríkisendurskoðunar. Hefur stofnunin brugðist við með því að stíga skrefinu lengra og kalla eftir öllum þjónustusamningum allra ráðuneyta og var það gert í desember sl.

Menntamálanefnd leitaði álits fjárlaganefndar Alþingis sem skilaði meirihlutaáliti og tveimur minnihlutaálitum og vænti ég þess að gerð verði grein fyrir meginatriðum þeirra í umræðunni á eftir.

Virðulegi forseti. Hvaða lærdóm eigum við að draga af þessu sorglega máli? Það er ljóst að mál af þessum toga koma óorði á starfsemi einkaskóla í landinu og því mikilvægt að greina rétt að hve miklu leyti vandinn liggur í rekstrarforminu sjálfu og að hve miklu leyti í háttalagi tiltekinna einstaklinga. Það er niðurstaða mín að þetta mál snúist fyrst og fremst um fjármálaóreiðu tiltekinna einstaklinga en megi ekki túlka sem einhvers konar stóradóm yfir einkaskólum í landinu. Það er líka ljóst að ýmsir einkaskólar hafa starfað árum saman í landinu samkvæmt þjónustusamningum við ríkið án þess að nokkur skuggi hafi fallið á fjármálaumsýslu þeirra. Hins vegar sýnir þetta mál nauðsyn þess að taka til rækilegrar skoðunar vinnulag, samningagerð og eftirfylgd ráðuneytisins með samstarfi sínu við einkaskóla og veit ég til þess að nú þegar hefur verið gripið til aðgerða í þá átt í ráðuneytinu.

Áfellisdómurinn yfir fjármálaumsýslu stjórnenda Menntaskólans Hraðbrautar dregur upp átakanlega mynd af afskiptaleysi stjórnvalda með framferði einkaaðila á árunum fyrir hrun. Svikamyllurnar í fjármálakerfinu sem leiddu til fjármálahrunsins er alvarlegasta dæmið. En á undanförnum mánuðum höfum við orðið vitni að fleiri dæmum um skipbrot stjórnkerfis í málum sem tengjast mikilvægum sviðum almannaþjónustunnar. Þar má nefna málin sem tengjast díoxínmengun frá sorpbrennslum á Vestfjörðum, Kirkjubæjarklaustri og Vestmannaeyjum þar sem aðgerðaleysi umhverfis- og heilbrigðisyfirvalda gagnvart almannavá var átakanlegt. Í þessu máli birtist okkur liðónýtt eftirlit menntamálaráðuneytis með vægast sagt vafasamri meðferð stjórnenda einkaskólans Hraðbrautar á fjármunum skattborgaranna. Það er mikilvægt að senda þau skilaboð frá Alþingi Íslendinga að slíkt háttalag hafi afleiðingar, að einkaaðilar sem gera samninga við ríkið geti ekki einfaldlega brotið gegn ákvæðum þeirra samninga og ætlast svo til að ríkið geri nýja samninga eins og ekkert hafi í skorist. Við þingmenn á Alþingi erum vörslumenn fjármuna almennings og verðum að taka það hlutverk alvarlega.

Ég vil að lokum þakka öllum nefndarmönnum í menntamálanefnd fyrir góða og vandaða vinnu í þessu máli og vonast eftir vandaðri umræðu um málið hér á eftir.