139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut.

380. mál
[14:46]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Skúla Helgasyni fyrir framsögu hans. Ég vil í upphafi spurningar minnar að það komi fram að ég tel að sú starfsemi sem hefur farið fram í Menntaskólanum Hraðbraut, þ.e. að bjóða upp á þann valkost að menn geti tekið stúdentspróf á stuttum tíma, sé afar skynsamlegur kostur og gott að hafa hann inni í menntakerfinu. En þá þurfa náttúrlega önnur atriði að fylgja og vera í lagi.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér um að þörf sé á starfsemi eins og þessari, bæði fyrir þá bráðgeru nemendur sem upprunalega hugmyndin snerist um en einnig fyrir eldri nemendur sem sótt hafa skólann og notið þess að hafa getað klárað framhaldsskólanám á stuttum tíma. Ég held að mikilvægt sé að þetta komi fram.

Í framhaldi velti ég upp þeirri spurningu hvort hv. þingmaður telji að þeir framhaldsskólar sem þegar eru í rekstri á landinu geti tekið að sér þetta verkefni. Þarna er væntanlega um að ræða á bilinu 100–200 nemendur, 100 nemendur á hvorum væng. Væri ekki jafnvel heppilegra að einhverjir af þeim framhaldsskólum sem þegar eru í rekstri tækju að sér hraðbrautir fyrir þessa tilteknu hópa?