139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut.

380. mál
[14:48]
Horfa

Frsm. menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég get svarað því strax. Það kom reyndar fram í máli mínu að ég er fylgjandi því að valkostur af þessu tagi sé til í menntakerfinu. Ég tel að löggjöfin sem samþykkt var á þinginu 2008 eigi að vera okkur leiðarljós í þeim efnum. Ég vil draga mörk á milli reynslunnar af fjármálaumsýslunni í þessum tiltekna skóla sem hefur verið gagnrýnd mjög og skólastarfsins sem þar hefur farið fram því að mikil ánægja hefur verið meðal nemenda með starfið sem þar hefur verið unnið af hendi. Starfslið skólans og kennaralið hefur unnið af miklum metnaði að því að láta þessa tilraun ganga upp. Það er því hryggilegt að fjármálaumsýsla af þessu tagi verði til þess að grafa undan tilraun sem er áhugaverð og á fullan rétt á sér.

Ég tel að það hljóti að vera vilji til þess, bæði í opinbera kerfinu og hjá öðrum einkaskólum, að skoða sambærileg úrræði. Ég hef heyrt af því, þó að það sé ekki beinlínis hluti af vinnu nefndarinnar, að einstakir skólar hafi þegar stigið ákveðin skref í þá átt að reyna að undirbúa nám sem yrði hliðstætt þessu. Ég mundi fagna því ef tækist að finna því stað í kerfinu þannig að menn hafi áfram valkosti um leiðir sem þeir vilja fara í framhaldsskólunum.