139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut.

380. mál
[14:50]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Skúla Helgasyni fyrir svörin. Ég vil í framhaldi af þessu snúa mér að hinum þáttunum í þessu máli, þ.e. fjármuna- og fjársýsluþáttunum. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji eðlilegt, þegar um er að ræða rekstur almannaþjónustu eins og þessa, þ.e. þjónustu sem við teljum væntanlega öll að sé nauðsynleg og það sé ein af grunnskyldum samfélagsins að bjóða upp á hana, hvort slíka þjónustu eigi að reka með arðsemiskröfu í huga. Eða telur hann eðlilegra að slíkt sé, eins og það hefur verið kallað á ensku, „non profit“ fyrirbæri, með leyfi forseta.

Þá langar mig að lokum að inna hv. þingmann eftir því hvernig hann telji að hægt sé að endurheimta þá fjármuni sem út af standa. Hvaða leiðir sér hann í því að ríkisvaldið geti með einhverjum hætti náð til baka þessum fjármunum? Hv. þingmaður nefndi hugmyndir um að kennt yrði upp í skuldina, ef ég skildi hann rétt. Ég sé ekki alveg að hægt sé að fara þá leið. Hvaða leiðir aðrar telur þingmaðurinn að séu í boði?