139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut.

380. mál
[14:52]
Horfa

Frsm. menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir fyrirspurnina og tek undir það sem kemur fram í máli hans. Ég tel að þegar um er að ræða þjónustusamninga af þessu tagi við einkaskóla í landinu eigi ríkisvaldið að búa svo um hnúta að ekki sé boðið upp á að skólarnir séu reknir í hagnaðarskyni fyrir eigendur þeirra, sérstaklega þegar við sjáum dæmi eins og í þessu tilviki um að ríkisframlögin séu notuð til að fóðra arðgreiðslur til eigenda, til að fóðra lánveitingar til tengdra aðila og til að standa fyrir meintum undirborgunum gagnvart kennurum sem hafa lagt á sig margfalda vinnu við að reyna að láta þessa tilraun ganga upp.

Það er ákveðinn misskilningur hjá fyrirspyrjanda varðandi aðferðirnar við að endurheimta fjármunina. Það er alveg skýrt frá hendi meiri hluta nefndarinnar að við teljum að hreinlegasta leiðin sé að fjármunirnir séu einfaldlega endurgreiddir í ríkissjóð. Hins vegar hefur venjan verið sú, þar á meðal varðandi þennan skóla, að mönnum hefur verið gefið svigrúm til að kenna upp í skuldina. Um það höfum við dæmi, bæði úr opinbera geiranum og einkageiranum.

Ég tel að rökstyðja megi þá aðferðafræði að veita ákveðið svigrúm, t.d. nýjum skólum í mjög afmarkaðan tíma meðan þeir eru að koma sér á fætur, og auðvitað geta aðstæður kallað á tiltekinn sveigjanleika. En þegar um er að ræða ofgreiðslur sem eiga sér stað ár eftir ár í talsvert langan tíma, hlýtur grundvelli þeirrar aðferðafræði að vera kippt undan henni. Afstaða nefndarinnar er því skýr. Við teljum að ofgreiðslurnar eigi að endurgreiða í ríkissjóð.