139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut.

380. mál
[15:01]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum hér skýrslu menntamálanefndar um skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut. Með bréfi þann 7. október fór forseti Alþingis þess á leit við formann menntamálanefndar að nefndin tæki til umfjöllunar skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut, samanber reglugerð um þinglega meðferð skýrslna Ríkisendurskoðunar frá 12. febrúar 2008. Þetta hefur menntamálanefnd gert og í þessari skýrslu koma fram tvö álit, annars vegar er álit meiri hluta nefndarinnar, hins vegar er álit minni hlutans og síðan er sameiginlegt álit nefndarinnar allrar í lok skýrslunnar.

Ég vil gera að umtalsefni álit minni hluta nefndarinnar, sem að standa sú sem hér stendur, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, og Íris Róbertsdóttir, sem sat fundi menntamálanefndar í fjarveru Unnar Brár Konráðsdóttur, sem gegndi varaformannsstöðu í þingmannanefndinni svokölluðu — Íris Róbertsdóttir tók um stundarsakir sæti hennar í menntamálanefnd.

Þegar Menntaskólinn Hraðbraut er skoðaður þarf, eins og meiri hluti menntamálanefndar gerir, að taka tvo þætti til gagngerrar skoðunar, annars vegar er það fjármálaumsýsla skólans og hins vegar skólastarfið sjálft sem hlýtur að skipta meginmáli í hverjum og einum skóla.

Það er algjörlega ljóst, samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar, að samkvæmt 5. gr. þjónustusamningsins skal fara fram árlegt uppgjör á fjárreiðum skólans. Ríkisendurskoðun segir jafnframt að slíkt uppgjöri hafi þó aldrei farið fram á þeim árum sem skólinn starfaði, frá árinu 2003 til ársins 2010. Ráðuneytið hafi vitað að nemendafjöldi skólans væri ekki í takt við fjárlög og skólinn hefði fengið hærri greiðslur en hann átti rétt á samkvæmt þjónustusamningi. Þetta liggur fyrir í skýrslu Ríkisendurskoðunar og þetta hlýtur að teljast ámælisvert, jafnt af hálfu stjórnenda skólans, sem hafa vitað um ofgreiðslur, og af hálfu ráðuneytisins sem ekki fylgdi eftir og kallaði eftir ársuppgjöri skólans.

Sem fulltrúi í menntamálanefnd óskaði ég eftir því að ráðuneytið svaraði því hvernig það gerði upp ofgreidd nemendaígildi og hvernig farið væri með slíkt í opinberum skólum — hvað varðar ofgreidd nemendaígildi, segir hér, ættu þær reglur að ríkja að Menntaskólanum Hraðbraut væri skylt að greiða til baka það sem ofgreitt var. Þau svör sem fengust frá ráðuneytinu, hvað varðar ofgreidd nemendaígildi, sem og skuldir opinberra skóla, voru afar óljós. Það var algjörlega ljóst að engin ein ákvörðun eða engin ákveðin regla gildir um þennan þátt í skólastarfi, hvorki hvað varðaði ofgreiðslur né hvernig menn tækju á skuldastöðu. Á meðan, frú forseti, ráðuneytið sjálft setur sér ekki skýra og afmarkaða stefnu um hvernig á að fara með ofgreidd nemendaígildi og skuldir opinberu skólanna getur það ekki, að mínu mati, sett einhverja sérstakar kvaðir eða reglur um einkarekna skóla. Í þessu tvennu verður að gilda jafnræði, það er algjörlega skýrt.

Það hlýtur því að vera hlutverk menntamálaráðuneytisins, miðað við skýrslu Ríkisendurskoðunar, að fara vel yfir þessa þætti. Er það m.a. krafa menntamálanefndarinnar allrar að gerð verði úttekt á þessu og að skýrt komi fram hvort og í hve miklum mæli það hafi viðgengist að fjárframlög hafi verið ofgreidd úr ríkissjóði án þess að til endurgreiðslu þeirra hafi komið. Jafnframt komi fram samanburður við opinbera framhaldsskóla í þessu sambandi. Það gengur ekki að fara eingöngu þannig fram gegn þeim skólum sem eru einkareknir en ætla að gera það á annan hátt gagnvart skólum sem eru í opinberri eigu.

Frú forseti. Hvort heldur sem er er alveg ljóst að fjármálaumsýsla Menntaskólans Hraðbrautar er ámælisverð. Það fer ekkert á milli mála. Það stendur hins vegar jafnframt í skýrslu Ríkisendurskoðunar — af því hér hefur mönnum orðið tíðrætt um arð sem eigendur Hraðbrautar hafi greitt sér — að hún telji hvorki þjónustusamninginn sjálfan né lög banna slíkar arðgreiðslur. Þannig að hér hafa lög í raun ekki verið brotin. Þetta er löglegt en menn getur greint á um það hvort þetta sé siðlegt í þeirri mynd sem hér hefur verið gert.

Ætli ríkisvaldið og menntamálaráðuneytið sér að setja í reglugerð, eða kanna eftir lagabálki þar að lútandi, hvort þetta sé óheimilt, þá gerir það það. Slíkt þarf þá að vera bundið lögum til að við, hv. alþingismenn, getum rætt það hér að eitthvað sé andstætt þessu eða hinu. Það kann að vera andstætt hinu siðlæga mati fólks en það er aldeilis ekki andstætt því sem er löglegt.

Jafnframt er greint frá því að Ríkisendurskoðun telur lánveitingar á milli skyldra aðila óæskilegar og í andstöðu við 7. gr. þjónustusamningsins vegna þess að þær lánveitingar tengdust heldur ekki rekstri skólans.

Frú forseti. Það er alveg ljóst, og ég ítreka það, að fjármálaumsýslu þessa skóla, Menntaskólans Hraðbrautar, var ábótavant og hún er ámælisverð. Það þarf að skoða. Sá þáttur sem skiptir þó meginmáli í öllu skólastarfi er skólastarfið sjálft. Þar kemur glögglega í ljós, af þeirri úttekt sem gerð hefur verið, að nemendur skólans eru afar sáttir við kennslufyrirkomulagið, þeir eru afar sáttir við lotukerfi skólans, þeir eru afar sáttir við það hvernig þeir nálgast námið og stuðning kennara. Þeir gagnrýna hins vegar að ekki sé um nægjanlega fjölbreytta kennsluhætti að ræða, en það er líka þekkt atriði úr hinum hefðbundnu skólum.

Það skiptir meginmáli að Menntaskólinn Hraðbraut býður upp á sérstakt fyrirkomulag. Hann býður upp á tveggja ára nám til stúdentsprófs. Hann er einstakur hvað það varðar í menntaskólageiranum. Þess vegna hafa nemendur sótt þangað, jafnt þeir sem eru nýkomnir úr grunnskóla sem og þeir sem eldri eru, og kjósa þessa leið til að nálgast stúdentspróf. Þessi möguleiki verður að vera fyrir hendi.

Það er líka ljóst að kennarar í fullu starfi við skólann eru tíu, það eru átta svokallaðir skólafulltrúar í fimm stöðugildum. Það er sagt að sex kennarar séu með kennsluréttindi. Flestir eru með BA eða BS-gráðu í sínum fræðum og sumir með meistaragráðu. Það er ljóst að starfsvelta meðal fastráðinna kennara er lítil. En starfsvelta meðal þeirra sem ekki eru fastráðnir er hins vegar meiri. Það þekkjum við líka úr hinum opinbera skóla.

Mönnum hefur orðið tíðrætt um að launakostnaður Menntaskólans Hraðbrautar sé undir 40% af rekstrarkostnaði en launakostnaður opinberu skólanna yfir 70% og telja því að eitthvað hljóti að vera að hjá Hraðbraut. Það hvarflar ekki að mönnum að velta því fyrir sér hvort hugsanlega geti eitthvað verið að hinum megin. Það er ljóst að hver einasti kennari sem kennir við Menntaskólann Hraðbraut, þennan einkaskóla, undirritar samning um kaup og kjör. Hann gengur frjáls að þeim samningum. Hann ber ábyrgð á þeim samningum sem hann gerir við sinn vinnuveitanda. Hann veit að þeir eru ekki samkvæmt kjarasamningum Kennarasambands Íslands. Þess vegna geta menn ekki síðar í ráðningarferlinu sett út á þann samning sem þeir hafa sjálfir undirritað. Þeir verða þá að segja upp samningi sínum. Og óski þeir ekki eftir endurráðningu á sama grunni, er það svo. Það er hins vegar annað mál hvort setja þarf inn í þjónustusamninga um einkaskóla á öllum stigum að þeir taki mið af ríkjandi kjarasamningi kennarafélaga. Það er allt önnur umræða sem menn verða þá að taka.

Starfsfólk Menntaskólans Hraðbrautar, sem kom á fund menntamálanefndar — þeir starfsmenn sem enn eru við skólann — lagði fram yfirlýsingu sem afhent var á fundi menntamálanefndar sem haldinn var 26. nóvember sl. Þar kemur m.a. fram, með leyfi forseta:

„Menntaskólinn Hraðbraut er valkostur í íslenska framhaldsskólakerfinu sem á sér ekki hliðstæðu. Sérstaða skólans er m.a. fólgin í eftirtöldum atriðum:

Námið í Hraðbraut er tvö ár í stað fjögurra ára sem er algengast í öðrum framhaldsskólum.

Námið er byggt á lotukerfi og aðeins eru kenndar þrjár kennslugreinar í einu þannig að nemendur geti einbeitt sér að fáum greinum í senn.

Nemendur fá hefðbundna kennslu þrjá daga vikunnar en stunda sjálfsnám tvo daga og fá þá leiðsögn og aðstoð frá kennurum skólans.

Skólinn er lítill og persónulegur þar sem allir eiga þess kost að njóta sín.“

Þetta er það sem við erum að óska eftir í öllum skólum, að allir eigi þess kost að njóta sín. Þeir sem velja Hraðbraut meta það svo að þar nýtist hæfileikar þeirra vel. Það kemur fram, bæði hjá nemendum og hjá kennurum.

Það er hins vegar ljóst að samstarfsörðugleikar eru, að því er virðist, á milli einstakra kennara og skólastjórnenda. Frú forseti, það er engin nýlunda, hvorki í grunnskólum, leikskólum, framhaldsskólum né í öðrum skólum. Það eru alltaf til þeir einstaklingar og þeir skólastjórnendur sem eiga í samstarfsörðugleikum. Ég ítreka að það er engin nýlunda í Menntaskólanum Hraðbraut. Það er þekkt stærð í íslensku skólakerfi og á flestum vinnustöðum. Ef það eitt og sér er ástæða til að endurnýja ekki þjónustusamning við Menntaskólann Hraðbraut þarf nú að fara í flestalla skóla til að kanna stöðu þeirra mála og önnur verkefni.

Í meirihlutaáliti nefndarinnar er það enda ekki meginástæðan. Meginástæðan er fjármálaumsýsla núverandi eigenda skólans og eftirlitsleysi menntamálaráðuneytisins. Ég tek undir það, eins og ég hef margoft sagt, að kveðinn er upp áfellisdómur yfir rekstri og fjárumsýslu stjórnenda skólans og áfellisdómur yfir eftirliti menntamálaráðuneytisins.

Í ljósi þeirrar sérstöðu sem Menntaskólinn Hraðbraut hefur og þeirrar ánægju og jákvæðu úttektar sem er á innra starfi skólans, ánægju nemenda með skólann og yfirlýsingar frá starfsfólki, leggur minni hlutinn til að mennta- og menningarmálaráðuneytið tryggi framtíð skólans með nýjum þjónustusamningi. Við leggjum jafnframt til að með nýjum þjónustusamningi verði gerðar skýrar kröfur um markmið skólans og rekstur, hvernig stjórn skólans skuli skipuð, hvert sé hlutverk stjórnarmanna og tryggt verði að starfsfólk skólans eigi þar fulltrúa.

Í mínum huga, frú forseti, má rekstrarformið eitt og sér aldrei ráða því hvort skóli lifir eða deyr. Innra starf skólans hlýtur alltaf að eiga að vera meginlínan. Hafi lög verið brotin á að refsa þeim sem brjóta lögin en það er ekki hægt í mínum huga, eins og hér er gert, að leggja til að þjónustusamningur verði ekki endurnýjaður.

Ég vona að ég hafi túlkað niðurstöðu meiri hluta menntamálanefndar í þá veru að komi aðrir aðilar að skólanum sé menntamálanefnd og meiri hluti hennar reiðubúin til að leggja til við ráðherra að þjónustusamningur verði gerður við Menntaskólann Hraðbraut til að halda úti þessu sérstaka tækifæri sem íslenskir framhaldsskólanemendur (Forseti hringir.) geta nýtt sér með því að til er sá valkostur að kjósa tveggja ára skólanám til stúdentsprófs.