139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut.

380. mál
[15:41]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir að fara yfir álit meiri hluta fjárlaganefndar. Mig langar að spyrja hana að tvennu. Það stendur hér að fjárlaganefnd telji að ekki hafi verið forsendur fyrir gerð nýs þjónustusamnings með óbreyttu umfangi við skólann árið 2007 þar sem endurskoðaðir ársreikningar hafi ekki legið fyrir.

Nú er ljóst að það er á þessum tíma og áfram í rekstri skólans sem nemendaígildin virðast hafa verið ofgreidd. Mig langar því að spyrja: Þegar þjónustusamningur er gerður og hann á að endurnýja þurfa báðir aðilar að hafa staðið við sitt, ofgreidd nemendaígildi greidd til baka og þar af leiðandi skuldin; telur þingmaðurinn ekki að það sama eigi að gilda um einkaskóla og hina opinberu skóla? Ég spyr líka hv. þingmann hvernig hann telji að meðhöndla eigi þá skuld þegar opinber framhaldsskóli fer fram úr á fjárlögum ár eftir ár. Á að halda rekstri skólans áfram? Hve lengi má slíkur skóli starfa farandi alltaf fram úr fjárlögum? Til hvaða aðstæðna og ráðstafana getur ríkið þá gripið eða hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra?