139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut.

380. mál
[15:47]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst mikilvægt að þjónustusamningurinn sé skýr eins og ég reyndi að segja í fyrra andsvari.

Varðandi félagaformið getur það skipti máli. Það getur verið einkahlutafélag en markmið hlutafélaga getur skipt máli ef við erum að hugsa um að láta menntastofnanir ekki vera reknar í gróðaskyni, ef svo má segja. Ég er hlynntari því sem fram hefur komið hér að skóli sem er einkarekinn og skilar afgangi eigi að leggja hann í skólastarfið sjálft eða starfsmennina, styrkja þá faglega, en ekki bara reiða hann til eigendanna. Það þarf líka að huga að því ef skóli er rekinn fyrir ríkisfé og nemendurnir greiða skólagjöld. Ég tel það ekki vera siðferðilega rétt ef afgangur er af rekstrinum að hann gangi til eigendanna heldur hlýtur hann að ganga til skólans sjálfs sem er að hluta til rekinn fyrir ríkisfé og að hluta til fyrir peninga sem koma frá nemendunum sjálfum.

Ég er hlynnt því að menntastofnanir séu ekki reknar í ágóðaskyni fyrir eigendur þeirra. En þetta þarf allt að skoða. Ég tel líka að það eigi að gera ríkar kröfur til menntastofnana sem eru reknar fyrir ríkisfé hvort sem þær eru opinberar stofnanir eða einkastofnanir.