139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut.

380. mál
[16:10]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég mun flytja ræðu mína á eftir og fara m.a. yfir eftirlitshlutverk ráðuneytisins á þeim tíma. En ég er komin hingað upp í ræðustól Alþingis til að spyrja hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur í fyllstu einlægni hvort hún telji sig hæfa til að gagnrýna sömu stjórnvöld, stjórnvöld þess tíma í menntamálum, og þurftu á sínum tíma að taka á mjög erfiðum málefnum hjá Menntaskólanum á Ísafirði. Ég spyr um hæfi. Ég er ekki að fara efnislega út í það mál en ég spyr einfaldlega: Finnst hv. þingmanni það rétt að hún geti farið af þessu mikla kappi — kannski meira af kappi en forsjá, eins og hún sagði áðan — í þá gagnrýni og hvort henni finnst það vera málefnalegt að fara með þeim hætti í þau stjórnvöld sem á sínum tíma þurftu að taka á mjög erfiðum málum sem áttu sér stað innan veggja Menntaskólans á Ísafirði?

Ég mun síðar fara yfir hlutverk og stjórnsýslu ráðuneytisins, geri það í ræðu hér á eftir. En þetta er sú spurning sem kviknaði eftir að ég hafði hlustað á ræðu hv. þingmanns.