139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut.

380. mál
[16:12]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er hreint ótrúleg framkoma sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sýnir hér. Við ræðum hér skýrslu menntamálanefndar um skýrslu Ríkisendurskoðunar — plögg sem liggja fyrir þinginu og eru formlega til umfjöllunar í þinginu — og hv. þingmaður leyfir sér að koma upp í ræðustól með dylgjur um mál sem ekki hefur verið lagt fram eða opnað fyrir þinginu. Ég gæti á opinberum vettvangi upplýst þingheim um það hvernig hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir brást hlutverki sínu sem menntamálaráðherra og fór pólitísku offari gagnvart stjórnendum Menntaskólans á Ísafirði. Gögn þess máls liggja hins vegar ekki undir og þingmenn geta ekki kynnt sér þau.

Kannski er tilefni til að biðja nú um opinbera rannsókn á stjórnsýslu menntamálaráðuneytisins í því máli. Þar var gengið á svig við góða stjórnsýslu og ég held að fullyrða megi að stjórnsýslulög hafi verið brotin. Þar komu upp mjög erfið mál þar sem stjórnendur skólans áttu að geta reitt sig á samstarf og hlutleysi ráðuneytisins sem yfirstofnunar og ráðuneytið brást gjörsamlega skólanum og stjórnendum hans.