139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut.

380. mál
[16:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Á sínum tíma þegar Menntaskólinn Hraðbraut fór af stað voru ekki allir á eitt sáttir um þá aðferð að fara af stað með Menntaskólann Hraðbraut. Af hverju? Jú, af því að þetta var einkarekinn skóli og hvað sem menn hafa sagt hér var mikil andstaða við einkarekinn skóla, en ekki síður hitt að meira og minna allt kerfið sjálft hafði ekki mikla samúð með því að menn gætu rekið hér tveggja ára svonefnda hraðbraut til stúdentsprófs. En þetta fór af stað og þetta hökti og vel það, þetta var ákveðin nýbreytni. Menn fóru í þetta með það í huga að auka valkosti nemenda í kerfinu. Upprunalega var þetta til þess að koma til móts við bráðger börn og að hluta til stóð skólinn undir væntingum. En hann fyllti líka upp í ákveðið gat og greinilega ákveðna þörf sem var í menntakerfinu hjá þeim nemendum sem voru eldri í samfélaginu og vildu fara hratt í gegnum skóla.

Ég sé ekkert að því og þetta er ekki í fyrsta sinn sem forsendur nýs skóla eru ekki alveg í samræmi við reynsluna af skólanum sjálfum. Þetta höfum við m.a. upplifað með Fjölbrautaskóla Snæfellinga þar sem við reiknuðum að mig minnir í kringum 130 nemendaígildi þegar skólinn fór af stað en skólinn varð síðan miklu fjölmennari af því að við áttuðum okkur ekki á þessari miklu þörf eldri nemenda sem vildu taka framhaldsskólapróf á staðnum.

Um leið og við þurfum að virða formfestuna, og við verðum að gera það, ég kem að því á eftir, verður menntakerfið um leið að vera sveigjanlegt. Það verður að geta lagað sig að þeim þörfum sem er verið að kalla eftir að menntakerfið sinni.

Það kemur ekki á óvart að brottfallið í Menntaskólanum Hraðbraut er hlutfallslega langtum minna en í öðrum skólum. Ég held að stjórnvöld í dag geti ekki tekið fyrir þennan valmöguleika um leið og þau skrúfa fyrir allar breytingar á námstíma til stúdentsprófs. Ég velti fyrir mér hvað í ósköpunum menntamálayfirvöld og núverandi ríkisstjórn hafi gert til að fylgja eftir þeim lögum sem við samþykktum 2008. Hér hafa menn talað um að það þurfi að minnka brottfall fyrir 2020. Af hverju eru menn þá ekki byrjaðir markvisst á því að vinna eftir lögunum í þá veru?

Það eru 87 brautir á starfsnámssviði og iðnnámssviði til að uppfylla mismunandi ólíkar þarfir nemenda. Tækin eru til staðar, atvinnulífið er með puttann á rekstri skóla eins og Tækniskólans og Háskólans í Reykjavík. Þetta á allt að stuðla að því að brottfall minnki en um leið er það umhugsunarefni af hverju við fjölgum ekki þeim skólum sem útskrifa stúdenta á skemmri tíma en fjórum árum. Við erum með mesta brottfallið innan OECD-landanna og jafnframt lengsta námið til stúdentsprófs. Það er samhengi þarna á milli og ég held einmitt að Hraðbrautin undirstriki að við eigum að nýta betur tímann innan íslensks skólakerfis.

Ég ætla að fara núna aðeins yfir skýrsluna, m.a. skýrslu Ríkisendurskoðunar. Ég ætla ekki að gera mjög miklar athugasemdir við hana sem slíka. Ég vil frekar taka mark á því sem þar er sagt og þó að ég sé ósammála einstökum atriðum tek ég engu að síður undir að stjórnsýslu ráðuneytisins á þeim tíma varðandi eftirlitshlutverkið hafi verið ábótavant. Það er þannig og við verðum að horfast í augu við það. Mér kemur ekki til hugar að beita sömu aðferðum og hæstv. forsætisráðherra gerði í svari sínu til hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar þegar hæstv. forsætisráðherra skýldi sér á bak við starfsmenn ráðuneytisins. Ég ætla ekki að taka það upp hér. Eftirlitsskyldu ráðuneytisins var ábótavant og er mér það efst í huga að við skyldum ekki á sínum tíma hafa gengið harðar eftir því. Við höfðum reyndar ekki lögin með okkur en hefðum samt getað gengið harðar eftir því að fá upplýsingar úr ársskýrslu Menntaskólans Hraðbrautar og þá um leið upplýsingar um arðgreiðslurnar.

Arðgreiðslurnar eru fullkomlega lögmætar og mér finnst vont þegar menn reyna að draga niður persónur og leikendur þeirra sem stjórna Menntaskólanum Hraðbraut með því að gera arðgreiðslurnar tortryggilegar. En ég segi það satt að mér fannst þær afar óheppilegar. Ég hafði ekki hugmynd um að á sama tíma og við komum til móts við skólann í þeim erfiðleikum sem við héldum að hann væri í væri verið að taka út arðgreiðslur. Mér finnst það í besta falli afar óheppilegt.

Þetta er það sem mér svíður eftir á að hyggja mest því að ég er hrædd um að vinstri menn noti gallana til að kveða einkarekstur í kútinn. Ég á þá ekki við alla sem mynda meiri hluta menntamálanefndar, til að mynda flutti hv. þm. Margrét Tryggvadóttir hér ágætisræðu og mér fannst gott að hún undirstrikaði mikilvægi þess að hafa fjölbreytni í skólakerfinu, bæði í rekstri og ekki síður í þjónustu, til að mæta mismunandi þörfum einstaklinga í samfélaginu. Ég verð að segja að ég er hrædd um að þessi galli á framkvæmd samningsins við Menntaskólann Hraðbraut verði til þess að vinstri flokkarnir nýti núna tækifærið og skrúfi fyrir einkarekin félög, bæði innan menntakerfisins og heilbrigðiskerfisins. Við sjáum alveg hvernig þau heykjast á öllu sem tengist einkareknum þjónustustofnunum innan heilbrigðiskerfisins og þetta er það sem ég óttast því að ég hef haft spurnir af því að menn ætli að þrengja möguleika m.a. einkarekinna skóla á grunnskólasviði innan grunnskólalaganna. Það má ekki gerast. Við eigum frekar að viðurkenna að ekki var allt með felldu í rekstrinum og reyna að laga það sem miður fór.

Ég vil hins vegar geta þess að það var ekki sjálfgefið að endurnýja samninginn 2007. Þá stóðum við frammi fyrir því að hætta skólanum og borga væntanlega töluverðar bætur vegna þess að við hefðum hætt þá eða að reyna að takmarka tímann. Ef allt hefði verið eðlilegt hefðum við lengt samninginn um fimm ár. Við lengdum hann til þriggja ára og strax í lok ársins 2008 var ákveðið að halda eftir 30 millj. kr. greiðslu af því að menn uppfylltu ekki samninginn um nemendaígildin. Menn höfðu varann á sér eftir þetta, menn höfðu lært af árunum fram til ársins 2007 þó að það réttlæti ekki alla hluti.

Menn hafa rætt undirborganir vegna kennara. Það kemur mér afar spánskt fyrir sjónir að menn fetti fingur út í að launakostnaðurinn sé minni. Ég tek undir það sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir sagði: Er ekki allt eins hægt að spyrja: Er ekki launakostnaður of hár, m.a. í opinberum stofnunum? Við verðum líka að átta okkur á því að fram til 2007 ríkti mjög mikil spenna á vinnumarkaði, það var mikil samkeppni um vinnuafl. Byssan var ekki munduð þegar menn skrifuðu undir samning á milli kennara og rekstraraðila Hraðbrautarinnar á þessu tímabili enda var starfsmannaveltan ekki mikil meðal fastráðinna starfsmanna.

Ég tek undir að það verður að fara vel yfir þessa skýrslu og ég vil líka um leið nýta tækifærið og benda á aðra skýrslu Ríkisendurskoðunar sem tengist nákvæmlega því að við verðum að veita aðhald þeim aðilum sem fá greitt út úr ríkissjóði, bæði einkareknum þjónustustofnunum og ekki síður opinberum þjónustustofnunum. Nú hefur Ríkisendurskoðun sent frá sér skýrslu um að það beri að endurskoða starfsmannalögin, þar á meðal áminningarskylduna sem mundi hafa í för með sér meira aðhald af hálfu ríkisins gagnvart starfsmönnum og forstöðumönnum stofnana. Á það hafa vinstri menn ekki viljað hlusta, hvorki þeir sem eru í ríkisstjórn núna og mótmæltu því á sínum tíma né aðrir þingmenn vinstri flokkanna. Það undirstrikar eiginlega rökstuðning minn fyrir þeim grunsemdum mínum að vinstri flokkarnir séu að fara í þetta af pólitískum hugsjónum einum saman af því að mönnum hugnist ekki þetta rekstrarform. Ef þeir segja að það eigi jafnt að gilda um opinberar og einkareknar stofnanir verða menn einfaldlega að einhenda sér í breytingar á starfsmannalögunum og fá þá yfirlýsingar í þá veru, ekki bara að taka til á einum kantinum.

Þetta er það sem ég vildi sagt hafa í minni fyrstu ræðu. Ég undirstrika að það skiptir máli að núna þegar menn eru að koma í veg fyrir að skólum fjölgi sem geta útskrifað nemendur á skemmri tíma en fjórum árum tel ég mikilvægt að þessi valkostur sé til staðar. Það þarf að huga að innra starfinu og það er ljóst að kennslan er góð, nemendurnir eru ánægðir og þeir skila ágætu framlagi inn í samfélagið og þá held ég að það sé rétt að menn fari (Forseti hringir.) yfir það hvaða möguleikar eru til að halda þessum rekstri áfram (Forseti hringir.) en þó að fenginni erfiðri og biturri reynslu varðandi reksturinn sem slíkan.