139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut.

380. mál
[16:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þetta er búin að vera mjög áhugaverð umræða og þessi skýrsla sem við hér ræðum er sorglegt dæmi um agaleysi í meðförum opinbers fjár. Það er ekki í fyrsta skipti sem við ræðum um það, það er búinn að vera árlegur viðburður síðan ég kom inn á þing. Það eru allt of mörg dæmi um slíkt, ekki hvað síst í opinberum stofnunum. Ég minnist þess að Landspítali – háskólasjúkrahús hafi farið reglulega fram úr fjárlögum og það voru ekki litlir peningar, það voru gífurlegir fjármunir, svo var það sléttað út og aftur fór hann fram úr. Þetta gerðist reglulega á tveggja, þriggja ára fresti að það var sléttað út. Nú hefur það reyndar lagast mjög mikið. Það hefur mjög margt lagast, enda hef ég stundum sagt að það þurfi sterk bein til að þola góða daga. Þegar hér voru góðir dagar og miklar tekjur ríkissjóðs fóru menn bara ansi glaðbeittir með opinbert fé, ekki hvað síst í opinberum stofnunum.

Kreppan hefur sem sagt aukið agann vegna þess að öllum er kunnugt um að ríkissjóð vantar fé og það þarf að skera niður og þá eru menn meira tilbúnir til þess en þegar allt var vaðandi í peningum eins og var. Það stefnir í miklu betri aga núna og það er bara fínt.

Það sem við ræðum hér er dæmi um einkaskóla, einkafyrirtæki, sem samningur er gerður við. Það er búið að lýsa því hérna og fyrrverandi hæstv. ráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur gengist við ábyrgð á því að þar hafi ýmislegt farið forgörðum sem átti ekki að gerast. Þetta er kannski vandinn. Ég hef margoft sagt að í hvert skipti sem greidd er fjárveiting sem sama aðila var greidd árið áður eigi að setja í lög að þá verði að gera samning við viðkomandi aðila, samning sem segir hvernig fjárveitingunni sé háttað og hvernig eftirliti sé háttað, bæði fjárhagseftirliti og gæðaeftirliti. Fjárhagseftirlitið vantaði hér. Menn þurfa hreinlega að áætla hluta af fjárveitingunni í þann kostnað. Ég veit ekki hvort það eru 5% eða 10% sem fara í kostnað við eftirlitið, jafnt til einkaaðila sem stofnana, þannig að menn fari ekki ár eftir ár fram úr fjárlögum eins og var tískan og þótti bara ekkert merkilegt, þetta var eins og að drekka vatn.

Það vantaði mjög mikið á í þessu dæmi og þetta er mjög sorglegt. Það versta er samt að þá byrja menn að draga furðulegar ályktanir eins og hv. formaður nefndarinnar gerir, Skúli Helgason, og fer að tala um að það eigi ekki að borga arð af hlutafé. Alveg ótrúleg ályktun. Bíðum við, hvernig er það hjá opinberum stofnunum? Það væri kannski ágætt að hann kæmi inn á það. Hvað gerist með stofnkostnað skóla? Það kostar kannski milljarð að byggja skóla. Er einhvern tímann borgaður arður af þeim milljarði? Eru borgaðir vextir af því fé sem ríkissjóður er búinn að binda inni í þessum skóla? Stundum er sett inn einhver málamyndaleiga, þá fá menn framlag fyrir leigunni úr ríkissjóði. Er þetta ekki einhvers konar arður?

Hvað mundu menn segja ef fyrirtæki gerði samning við ríkið eins og hér var sýnt fram á og gerðu svo jafnframt leigusamning við annað fyrirtæki sem ætti húsnæðið? Mætti það eða mætti það ekki? Mega opinber fyrirtæki eða einkaaðilar sem gera samning við ríkið ekki borga leigu? Þetta er náttúrlega bara eitthvað — ég veit ekki, ég held að það sé kannski hjá bókstafstrúarmúhameðstrúarmönnum sem vextir eru bannaðir. Arður er ekkert annað en leiga fyrir fé þannig að ég skil ekki þessa umræðu. Þetta er alveg ótrúlegt.

Menn hafa ályktað út frá þessu dæmi að einkarekstur eigi að minnka, að minnka eigi svona samninga, ekki borga arð o.s.frv., þeir nota þetta dæmi til að draga ályktanir fyrir fjölda annarra fyrirtækja.

Ég nefndi áðan að með nákvæmlega sama hætti ættu menn að draga þær ályktanir af t.d. Háskólanum á Akureyri og Háskólanum á Hólum að menn hættu bara með opinberan rekstur í menntakerfinu. Það er nákvæmlega sama ályktunin. Það er náttúrlega alveg fáránlegt að taka eitt dæmi þar sem menn fara út af sporinu og yfirfæra á allt annað, það er alveg fráleitt. Ég skil ekkert í formanni nefndarinnar, en hann útskýrir kannski betur, hv. formaður nefndarinnar, Skúli Helgason, þá hugsun sína að ekki megi borga arð af hlutafé.

Ég spurði áðan hvort nefndin hefði skoðað mismunandi brottfall. Mér sýnist brottfall úr þessum skóla vera 5% en að það sé upp undir 30–40% í öðrum skólum. Hvað kostar það þjóðfélagið, viðkomandi nemendur og skóla? Og hvað kostar það ríkissjóð? Hvað sparar þessi skóli ríkissjóði mikið með því að hafa miklu minna brottfall? Og hefur verið kannað af hverju það er minna brottfall? Ég hef grun um að það sé vegna þess að kennslan sé miklu betur skipulögð. Hún er miklu strangari og það er miklu meiri agi í kennslunni, ég veit það, ég þekki það.

Síðan spurði ég líka hvort nefndin hefði kannað hve mikið sparast við það að starfsævi viðkomandi einstaklinga er lengd um tvö til þrjú ár. Starfsævin er lengd um tvö til þrjú ár vegna þess að þeir fara tveim til þremur árum fyrr í allt hákólanám og koma tveim til þremur árum fyrr inn á vinnumarkaðinn. Þeir væntanlega vinna jafnlengi og aðrir, þ.e. til ákveðins aldurs, þannig að starfsævin er lengd um tvö til þrjú ár. Af hverju segi ég þrjú ár, frú forseti? Það er vegna þess að mér skilst að meðaltíminn til stúdentsprófs sé nefnilega fimm ár, vegna brottfallsins. Það er ekki fjögur ár þótt gert sé ráð fyrir því.

Við erum að tala um að þessir einstaklingar sem fara í gegnum Hraðbraut vinni tveim til þrem árum lengur en aðrir. Það eru einar 10–15 milljónir sem hver og einn hefur í meiri tekjur en ella. Í staðinn fyrir að kosta skólakerfið er hann með tekjur. Af þessum tekjum borgar hann sennilega, ef við tökum tryggingagjaldið með og fleiri skatta, 30–40% þannig að við erum að tala um 4–6 milljónir sem ríkissjóður fær fyrir hvern einasta nemanda sem fer þarna í gegn. Þetta finnst mér vanta alveg inn í skýrsluna og alveg ótrúlegt að ekki skuli vera getið um það sem plúsa við þetta kerfi hvað námstíminn er stuttur.

Svo er sumarleyfið miklu styttra. Ef hv. formaður nefndarinnar kemur upp vil ég spyrja hvort það hafi verið kannað hvort skólinn fái aukalega greitt fyrir það að sumarleyfi er miklu styttra en í öðrum skólum. Mér skilst að það sé sumarleyfi í fimm vikur.

Svo kom upp umræða áðan sem ég ætlaði að ljúka minni ræðu á að fara yfir, um að kennarar væru með lægri laun í Menntaskólanum Hraðbraut. Það þarf ekkert að vera. Launakostnaður er allt annað en laun viðkomandi einstaklinga. Ef maður rekur fyrirtæki illa, t.d. í sjávarútvegi, útgerð eða fiskvinnslu, og hefur tvöfalt meiri mannskap en hann þarf og borgar honum léleg laun er launakostnaðurinn samt meiri. Launakostnaður er eitt og laun starfsmanna eru annað. Þetta eru rangar ályktanir sem menn draga. Skóli getur hreinlega verið betur rekinn. Það er ekki aðalsmerki fyrir stofnun eða fyrirtæki að launakostnaður sé hár. Það er ekki þar með sagt að reksturinn sé góður og allt í ljómanum, alls ekki.

Þessi skýrsla er svört, en það vantar í hana þó nokkuð marga punkta sem ég hefði talið eðlilegt að hv. menntamálanefnd hefði fjallað um.