139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut.

380. mál
[16:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er dálítið merkilegt með stuðningsmenn núverandi ríkisstjórnar að þeir hafa ekkert uppgötvað að þeir eru komnir í ríkisstjórn, farnir að stjórna sjálfir og bera ábyrgð á því sem gerist. Þeir eru alltaf að vísa í eitthvað gamalt. (SkH: Við erum …) Það er alltaf verið að vísa í eitthvað gamalt. Það er alltaf verið að vinna í einhverju og það er alltaf verið að vísa í það sem var áður. (Gripið fram í.) Þeir eru bara ekki enn þá búnir að taka við stjórnartaumunum í huganum og kenna alltaf öðrum um.

Varðandi það sem ekki var sannleikanum samkvæmt, ég heyrði hv. þingmann segja í andsvörum eða í ræðunni, ég man ekki hvort heldur, að það ætti ekki að borga arð. Þeir aðilar sem menn semdu við ættu ekki að fá að greiða út arð. Ég spyr: Hvernig í ósköpunum á þá að reka svoleiðis fyrirtæki? Hvaðan á hlutaféð að koma? Hver á að gefa viðkomandi fyrirtæki hlutafé arðlaust, vaxtalaust? Hvernig dettur mönnum þetta í hug? Þetta er til reyndar í sumum múhameðstrúarlöndum þar sem vextir eru bannaðir. Ég hélt að þetta væri ekki til hérna.

Af því að ekki er hægt að reka einkafyrirtæki sem fær ekki vexti eða arð af hlutafé dró ég af þessu þá ályktun að hv. þingmaður vildi ekki hafa einkarekstur í menntakerfinu. Það er þá röng ályktun. Hann ætlar sem sagt að hafa einkarekstur en hann á að vera arðlaus. Það er dálítið merkilegt. Ég skora á hv. þingmann að leggja fram hlutafé í einhvern skóla, segjum eina milljón, og afneita arði eða vöxtum af því fé til allrar frambúðar.