139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[17:11]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg hárrétt sem hv. þingmaður sagði, hann rakti þetta mjög vel í gær og þetta var nákvæmlega eins og hann lýsti þessu. En hann hefur reyndar misskilið eitt atriði sem ég sagði áðan. Ég sagði ekki að þetta væri samkvæmt þingsályktunartillögunni, ég sagði að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, sem mælti fyrir þessari þingsályktunartillögu, hefði haldið því fram í umræðunni í gær að sá kostnaður sem hún hefði reynt að leggja mat á væri 6–7 milljarðar. Það var það sem ég sagði, ég var ekki að vísa í þingsályktunartillöguna sem var lögð fram um umsóknina heldur þingsályktunartillöguna sem við ræðum í dag. Ég dró þetta fram einmitt til að við kæmumst í einhverja vitræna umræðu um það hver kostnaðurinn er í raun og veru. Ég sagði að ég teldi að það væri klárlega dulinn kostnaður í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, en þetta var misskilningur hjá hv. þingmanni, ég var ekki að vísa í þingsályktunartillöguna um umsóknina heldur þá tillögu sem við ræðum hér og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir mælti fyrir og hafði þá þessi orð. Þetta var misskilningur hjá hv. þingmanni.