139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[17:13]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta eru góðar umræður, fólk skilur illa hvert annað. Eitt vefst fyrir okkur öllum, þ.e. hvað er aðlögun og hvað eru aðildarviðræður. Ég ætla að reyna að fara í gegnum þetta einu sinni enn.

Við erum í samningaviðræðum um aðild að Evrópusambandinu. Það þýðir að við ætlum að sjá hvernig við getum tekið upp þær reglur sem eru í Evrópusambandinu, hvort við getum lagað okkur að þeim, hvort við fáum einhverjar breytingar, hvað við getum gert. Af því að við tökum þær ekki upp bara svona „hviss bang“.

Í sambandi við landbúnað er ljóst að taka þarf upp það landbúnaðarkerfi sem þar er, það meginkerfi. En við erum að semja um hvernig við getum breytt því á Íslandi, t.d. eins og í Finnlandi. Finnar eru með grunninn en svo mikla viðbót þannig að þeir geta greitt viðbótarstyrki. Það er öllum ljóst að ef við fáum það þarf að breyta greiðslukerfinu hér. Mér er sagt að það hafi komið í ljós í viðræðum að það sé minna en áður var talið. Og við þurfum að vera tilbúin með áætlun um hvernig við komum því á þegar við erum búin að samþykkja samninginn. Það má kalla þetta aðlögun eða ekki en við þurfum ekki að taka kerfið upp fyrr en við erum búin að samþykkja samninginn en við þurfum að vita hvernig við ætlum að gera það. Þetta er fyrsta svar.

Næsta svar: Erum við með styrkina? Við getum fengið styrk til að fá sérfræðinga til að segja okkur hvernig við eigum að fara að þessu, hvað við þurfum að gera, hvernig þetta eigi að vera.