139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[17:17]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að það er mjög gott ef fólk getur haldið ballans í þessari umræðu, ég er mjög sammála því. Ég hætti í miðju kafi áðan af því að ég tek klukkuna svo alvarlega. Ég ætlaði að segja að við getum fengið styrki í formi sérfræðiþjónustu eða sérfræðikunnáttu eins og það að sýna okkur hvernig þessar stofnanir í kringum styrkjakerfi landbúnaðarins þyrftu að líta út, hvernig það þyrfti að líta út þegar við værum komin þarna inn, hvaða áætlanir við þyrftum að gera — það er ein tegund af styrkjum sem er í þessu, ég held þetta sé kallað TAIEX. Svo er önnur tegund af styrkjum sem er kallað IPA, sem er einmitt um verkefni eins og hv. þingmaður nefndi um það að koma á rafrænni sjúkraskrá, um það að gera eitthvað annað, lagfæra eitthvað í stjórnsýslu okkar sem væntanlega má kalla aðlögun af því að það kæmi okkur vel þegar við erum komin þarna inn að vera með betra kerfi. Ég veit ekki hvað á að kalla það. Á að kalla það aðlögun, á að kalla það lagfæringu, á að kalla það bót?

Við töluðum í gær um breytingu sem var gerð á skipun dómara. Í þessum rýniskýrslum segir kannski: Þyrfti að skoða þetta eða þyrfti að skoða hitt. Evrópusambandinu finnst það þá eitthvað lengra frá því sem þeir eiga að venjast. Og hvað varðar dómarana eru kröfurnar hertar út af austantjaldsríkjunum gömlu. Við vitum alveg hvernig ástandið var þar en sömu kröfur eru lagðar á okkur líka. Og þá erum við komin nær því sem okkur þykir eðlilegt. Ég veit ekki hvort það er aðlögun, við getum kallað það aðlögun ef við viljum.