139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[17:22]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Öll þessi ógæfa hófst með myndun núverandi ríkisstjórnar. Þá gerðist það að Samfylkingin taldi Vinstri grænum trú um að núverandi ríkisstjórn yrði ekki mynduð nema á það yrði fallist að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið. Þetta voru mikil mistök af hálfu þeirra sem voru andsnúnir því að ganga í Evrópusambandið vegna þess að Samfylkingin hafði ekki sem stjórnmálaflokkur neina stöðu til þess að kúga hvorki einn né neinn til nokkurs hlutar varðandi Evrópusambandið. Samfylkingin er einfaldlega í þeirri stöðu á Alþingi að vera eini stjórnmálaflokkurinn sem vill aðild að Evrópusambandinu. Kostir Samfylkingarinnar til að koma á ríkisstjórn voru háðir því að einhver mundi fallast á þessi skilyrði og það var gert illu heilli. Þetta var síðan innsiglað með naumu samþykki Alþingis 16. júlí og nú liggur fyrir að helmingur þeirrar ríkisstjórnar sem vinnur að því að sinna aðildarviðræðum við Evrópusambandið er á móti því, er yfirlýstur andstæðingur þess að ganga í Evrópusambandið. Þess vegna verða þessar viðræður svona afkáralegar eins og þær hafa verið þegar það liggur fyrir að helmingur ríkisstjórnarinnar hefur tilhneigingu til að draga lappirnar í málinu. Hinn helmingurinn er gríðarlega áhugasamur. Auðvitað fer þetta allt á skakk og skjön eins og við höfum séð að hefur verið að gerast í þessum viðræðum það sem af er.

Mér finnst þetta vera orðinn skrípaleikur og það sé óheiðarlegt gagnvart viðsemjendum okkar, óheiðarlegt gagnvart okkur sjálfum og óheiðarlegt gagnvart þjóðfélaginu að halda þessum viðræðum áfram. Þess vegna er að mínu mati sú staða einfaldlega komin upp að skynsamlegt sé fyrir okkur að hætta þessum viðræðum eða setja þær a.m.k. á ís meðan sú pólitíska staða er uppi sem raun ber vitni.

Hér hefur dálítið verið rætt um hugtökin aðlögun eða aðildarviðræður. Ég var að koma af merkilegum fundi Landssambands landeigenda þar sem nokkrir lögfræðingar voru að ræða hugtakið „þjóðareign“ og komust að þeirri niðurstöðu að það hefði nánast enga merkingu, enga eiginlega merkingu. Þeir færðu fyrir því rök að þegar við tækjum umræðu um vandasöm mál þar sem hugtökin hefðu ekki merkingu værum við vís til þess að enda alltaf úti í móa. Það er í raun og veru þar sem við erum að lenda í með þetta. Menn telja sér trú um að þetta séu einhvers konar einfaldar aðildarviðræður, það sé bara verið að kíkja í pakkann, kíkja hvar búi þar að baki. En í raun og veru eru þessar viðræður þannig í eðli sínu að þær halda áfram og menn þurfa stöðugt að færa sig nær því markmiði að komast að einhverri niðurstöðu um hvort hægt sé að ná samningum um aðild. Þess vegna verða aðildarviðræður af þessu tagi í eðli sínu að aðlögunarviðræðum.

Rýnifundirnir sem standa yfir og eru hálfnaðir eru glöggt dæmi um þetta. Við sem sitjum í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis höfum átt þess kost að fara yfir þann hluta málsins sem snýr að landbúnaðarkaflanum. Þar blasir við að við erum komin á kaf inn í aðlögunina eða erum að minnsta kosti um það bil að fara inn í aðlögunina hvað landbúnaðinn áhrærir.

Það er verið að leggja fyrir okkur spurningar sem við þurfum að svara sem eru ekki bara tæknilegs eðlis, þær eru líka pólitísks eðlis. Spurt er grundvallarspurninga og fyrsta spurningin sem blasir við er þessi: Ætla Íslendingar að taka yfir landbúnaðarlöggjöf Evrópusambandsins? Svarið er auðvitað augljóst. Ef við ætlum að verða aðilar að Evrópusambandinu þá tökum við í einhverri mynd yfir landbúnaðarlöggjöf Evrópusambandsins. Það er ekki þannig að Evrópusambandið taki yfir íslensku landbúnaðarlöggjöfina, það er á hinn veginn. Það er Ísland sem tekur þá yfir landbúnaðarlöggjöf Evrópusambandsins. Við vitum að hún er í grundvallaratriðum algerlega ólík okkar landbúnaðarlöggjöf. Hún byggist t.d. ekki á framleiðslutengdum stuðningi heldur stuðningi sem tekur mið af landi, landnýtingu, búsetu o.s.frv. Þess vegna þarf, til að það sé hægt t.d., að leggja í mikla vinnu við svokallað landskipulag sem kallar á margra ára verkefni. Það er því augljóst mál að ef við ætlum að stíga skrefið áfram frá því sem við erum að gera núna verðum við að hefja þessa vinnu við landskipulagið. Það er aðlögun í sjálfu sér, af þeim ástæðum. Það má kannski segja sem svo að það sé gott og gagnlegt og gaman fyrir okkur Íslendinga að eiga nákvæmar ljósmyndir af hverri þúfu á íslensku landi en það hefur ekkert sérstakt gildi fyrir okkur í sjálfu sér við núverandi aðstæður. Það hefur gildi ef við ætlum að ganga í Evrópusambandið.

Það sama á við um það að Evrópusambandið er með allt öðruvísi landbúnaðarlöggjöf. Þess vegna þarf að hafa sérstaka stofnun, sem menn hafa kallað greiðslustofu að ég hygg. Hún kostar mikið fé. Tæknilegur undirbúningur við að koma henni á laggirnar tekur um það bil tvö ár. Ekki er um það að ræða að við mundum hefja vinnu við það eftir að búið væri að samþykkja aðild að Evrópusambandinu. Sú vinna yrði auðvitað að hefjast með fram því að verið er að vinna að þessari aðildarumsókn okkar.

Það blasir líka við okkur að við þurfum að svara strax áleitnum pólitískum spurningum sem lúta að landbúnaðinum, tollaspurningunni. Það er augljóst mál að um leið og við göngum í Evrópusambandið fellur niður öll tollvernd gagnvart innfluttum landbúnaðarvörum frá Evrópusambandinu. Það sama á við um sjávarútveginn, spurningar um það hver eigi að taka ákvörðun um heildarafla. Það er augljóst mál að slík ákvörðun er tekin á vettvangi Evrópusambandsins ef við erum þar inni. Við getum auðvitað haft áhrif á það en hitt blasir við. Við vitum líka að við höfum hingað til verið einráðir um það hvernig við stöndum að stjórnun á deilistofnunum okkar. Það er augljóst mál að innan löggjafar Evrópusambandsins er ekkert rými fyrir slíkt. Sama á við um fjölmargt annað, erlendar fjárfestingar o.s.frv. Hvernig sem menn líta á málið, jafnvel þó menn kjósi að kalla þetta eins konar aðildarviðræður þá verða þær smám saman í eðli aðlögunarviðræður vegna þess að við stígum skrefið stöðugt áfram.

Þess vegna er miklu heiðarlegra fyrir okkur að standa nú upp og gera þá bara grein fyrir því hvert ferðinni er heitið. Henni er heitið áfram meðan við ekki tökum ákvörðun um að afturkalla umsóknina eða að minnsta kosti setja hana á ís.

Það sem líka hlýtur að koma mjög til álita fyrir alla þá sem eru að velta þessum málum fyrir sér er sú þróun sem hefur orðið innan Evrópusambandsins. Það mætti mjög margt segja um það. Ég ætla að vekja athygli á einum hlut. Eftir efnahagshrunið sem varð í Evrópu, ekki bara hér á Íslandi heldur í Evrópu, hefur það orðið stöðugt áleitnara í umræðunni að betur þurfi að samhæfa peningamálastjórnina, sem Evrópusambandið hefur verið að gera á grundvelli evrunnar, og líka ríkisfjármálastefnuna. Við þekkjum þá umræðu innan lands, hvernig hún hefur farið fram, þar sem fólk hefur verið að vekja á því athygli — og ég hygg að flestir séu sammála um að einhvers konar samhljómur þurfi að vera á milli peningamálastefnunnar, sem viðkomandi seðlabanki stjórnar, og ríkisfjármálastefnunnar. Innan Evrópusambandsins er þróunin í átt til evrunnar og þar fer peningamálastjórnun þá fram, hjá Seðlabanka Evrópu. Og til að hún virki þarf að vera einhver samhæfing í ríkisfjármálunum líka. Þá fer að sneyðast um fullveldi ríkja sem hingað til hafa haldið utan um sín ríkisfjármál ein og sér. Frá sjónarhóli okkar Íslendinga hlyti það t.d. að blasa við að við yrðum að sækja um heimildir til Evrópusambandsins um það með hvaða hætti við vildum reka okkar ríkisbúskap. Er það viðunandi af okkar hálfu að halda úti ríkisfjármálastefnu sem ekki er í samræmi við peningamálastefnu þá sem Evrópusambandið fylgir á hverjum tíma fyrir sig? Þróunin er því einfaldlega, og að mörgu leyti óhjákvæmilega, í þessa átt innan Evrópusambandsins, í átt til aukinnar samræmingar á kostnað sjálfræðis fullvalda ríkja eins og okkar. Þannig að fullveldisspurningin, sem við héldum okkur kannski vera að svara fyrir einu ári, er nú lögð fram með allt öðrum hætti í Evrópu en gert var áður. Þess vegna er það algerlega óhjákvæmilegt þegar við ræðum þessi mál að við ræðum þau líka út frá þeirri staðreynd sem við okkur blasir að þróunin í Evrópu er í átt til aukins samruna af þessu tagi sem hlýtur að koma niður á því fullveldi sem hvert ríki hefur haft.

Virðulegi forseti. Tími minn er á þrotum. Ég vil ítreka það sem ég segi: Ég tel að þessi umræða, sem hefur farið fram um Evrópusambandið, sýni okkur að þetta er að verða hreinn skrípaleikur. Ríkisstjórnin hefur ekkert vald á þessu máli, fullkominn ágreiningur er innan borðs varðandi grundvallaratriði. Það er heiðarlegra gagnvart okkur sjálfum, gagnvart íslensku þjóðinni og líka gagnvart viðsemjendum okkar að koma hreint fram og annaðhvort afturkalla þessar viðræður eða setja þær á ís.