139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[17:36]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni og ég tek undir það sem kom fram í máli hans varðandi aðlögun, að það ferli sem við erum í og höfum séð í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, þ.e. að þær spurningar sem hefur þurft að svara þar og það sem fram fer í þessari rýnivinnu getur aldrei leitt til annars en þess að annaðhvort strandar þetta fley eða við förum í aðlögun. Ég held að önnur niðurstaða geti aldrei orðið.

Er þá ekki hyggilegast að mati hv. þingmanns að leggja þetta verkefni til hliðar eða einfaldlega fara að ræða þá vankanta sem uppi eru í ferlinu og hvað sér hann fyrir sér til lausnar þessu? Nú veit ég að flokkur hv. þingmanns hefur það á stefnuskrá sinni að draga þessa umsókn umsvifalaust til baka. Mundi hann ekki styðja slíkt og mundi hann ekki styðja þessa tillögu sem hér er lögð fram? Er hún ekki eðlileg í ljósi þess hvernig þetta ferli er uppbyggt?