139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[17:40]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þingsályktunartillaga þessi er komin á dagskrá þingsins, um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Þetta er í góðu samræmi við það sem ég minnti á í þinginu í gær að í utanríkismálanefnd liggur tillaga frá mér og fleiri þingmönnum um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort halda eigi þessu aðlögunarferli áfram. Þá fengi þjóðin að skera úr um það nú á þessum tímapunkti, eftir 3–4 mánuði, hvort eigi að halda þessu áfram eða ekki.

Þessi þingsályktunartillaga gengur lengra, þ.e. að draga umsóknina hreinlega til baka og Alþingi Íslendinga mundi samþykkja það eða synja. Ég tel nefnilega að tillaga mín sé nokkurs konar millileið, þ.e. að þjóðin fái að koma að því núna hvort eigi að halda áfram eða ekki því að þá er það vald sett í hendur þjóðarinnar. Ef samþykkt yrði í þjóðaratkvæðagreiðslu að halda áfram hefði ríkisstjórnin í fyrsta sinn skýrt umboð til að halda aðlögunarferlinu áfram, annars ekki. Ég tel að ríkisstjórnin sé algerlega umboðslaus í þessu aðlögunarferli. Eins og kom fram í ræðum í gær, t.d. hjá hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni, var honum hótað þegar atkvæðagreiðslan um ESB var á dagskrá og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, hefur einnig talað um það hvernig hótanirnar gengu hér á milli. Þegar þingsályktunartillaga var samþykkt á sínum tíma um að leggja inn aðild að Evrópusambandinu þá var það þvinguð niðurstaða.

Frú forseti. Mig langar til að koma að einu atriði sem hefur birst landsmönnum í fjölmiðlum í dag og vil ég biðja þá netmiðla sem um málið hafa fjallað að leiðrétta þann fréttaflutning sem kemur úr utanríkisráðuneytinu. Þetta snýr augljóslega að utanríkisráðherra og þetta snýr að því máli sem hér er til umræðu, þessu Evrópusambandsmáli öllu.

Ég leyfði mér sem þingmaður þann munað að leggja fyrir utanríkisráðherra skriflegar spurningar í átta liðum og snúa að sendiráðum hér á landi. Það er nefnilega svo að sendiráð hér og annars staðar njóta friðhelgisréttinda vegna þess að þau eru í skjóli íslenska ríkisins og mega ekki skipta sér af innanríkismálum.

Ég spurði ráðherrann vegna þess að hér er búið að stofna 20 manna sendiráð ESB. Til stendur eða er í burðarliðnum, jafnvel yfirstaðið, að opna útibú á Akureyri. Ég tel að það brjóti gegn Vínarsamningnum um ræðissamband ríkja. Þannig vill til að hæstv. utanríkisráðherra snýr heiftarlega út úr spurningu minni. Ég ætla að lesa hana, með leyfi forseta. Hún hljóðar svo:

„Telur ráðherra það samræmast ákvæðum um að skipta sér ekki af innanlandsmálum, sbr. 55. gr. Vínarsamningsins, þegar beinlínis er gert ráð fyrir að sendiráð Evrópusambandsins komi að kynningarmálum sambandsins hér á landi?“

55. gr. Vínarsamningsins um ræðismann sambandsins hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Öllum þeim sem njóta forréttinda og friðhelgi ber skylda til að virða lög og reglur viðtökuríkisins, en slík skylda skerðir þó ekki forréttindi þeirra og friðhelgi. Þeim er einnig skylt að skipta sér ekki af innanlandsmálum í því ríki.“

Greinin er í þremur töluliðum en ég var aðallega að vísa til 1. mgr. Utanríkisráðherra bregður á það ráð að þvæla hér og röfla í löngu máli um þessa litlu já- eða nei-spurningu vegna þess að hann getur ekki svarað því hvernig standa megi á því að ESB sé farið að skipta sér ríkulega af innanríkismálum. Það stendur til að dæla yfir Íslendinga 4 milljörðum í kynningarskyni. Verið er að koma með TAIEX-styrki og IPA-styrki sem er eitthvað sem við kærum okkur ekki um en þetta heitir að skipta sér freklega af innanlandsmálum ríkis.

Ráðherrann setur þetta í einkennilegan búning og fjallar um það í löngu máli að ég sé að ruglast á samningum og er raunverulega að reyna að gera lítið úr mér sem fyrirspyrjanda en, frú forseti, það er hæstv. utanríkisráðherra sem fer hreinlega með ósannindi í svarinu sem hann skilaði til þingsins og til mín. Hann fer með ósannindi og þennan hæstv. utanríkisráðherra sitjum við uppi með.

Hvernig hagar hæstv. ráðherra sér gagnvart öðrum ríkjum? Þetta er löggiltur pappír sem lagður er fyrir Alþingi Íslendinga sem svar við fyrirspurn. Ég tel að jafnvel sé ástæða til að víta hæstv. utanríkisráðherra fyrir að svara með þessum hætti, koma inn í svar sitt með annan samning en um ræðir og þvæla þessu fram og til baka. Það er ótrúlegt í ljósi þess að ég ber þessa spurningu fyrst og fremst fram vegna ríkrar upplýsingaskyldu framkvæmdarvaldsins við löggjafarvaldið.

Það næsta sem ég veit er að þetta er orðið að frétt á eyjan.is og komin var frétt á mbl.is og amx.is þar sem þetta er túlkað ráðherranum í hag. Ég vil því fara fram á það við þessa fjölmiðla að þeir leiðrétti þennan fréttaflutning hið snarasta og þá er ég sérstaklega að tala um að eyjan.is þarf að leiðrétta sína frétt því að verið er að hnýta í mig sem þingmann, að ég hafi jafnframt misskilið þjóðaratkvæðagreiðslulögin. Ég sé ekki betur en að orðalagið sem er í þeirri frétt sé samið á sömu skrifstofu og það svar var samið sem ég fékk í þingskjali. Þetta er alvarlegt og ég á eftir að ræða þetta frekar við hæstv. utanríkisráðherra. En fyrst hæstv. utanríkisráðherra leyfir sér að fara með þessi ósannindi fram í þingskjali gagnvart þinginu þá býð ég ekki í það hvaða blekkingar hann notar í viðtölum erlendis við svörum annars staðar frá o.s.frv.

Einnig gætir mikils hroka hjá hæstv. utanríkisráðherra. Hann telur að ég standi í miklu myrkri og hann ásamt lögfræðingum utanríkisráðuneytisins geti ekki fundið út úr þessari spurningu. Ég ætla ekki að kasta rýrð á embættismenn utanríkisráðuneytisins en það veit ég fullvel að hæstv. utanríkisráðherra er bestur á nóttinni þegar hann bloggar, en hann er ekki löglærður, og ég gæti því alveg trúað honum til að misskilja þetta með þessum hætti en hann ber fyrir sig lögfræðinga utanríkisráðuneytisins líka.

Við þurfum að taka á þessu, frú forseti, og ég varð að koma þessu að vegna þess að þetta mál er til umfjöllunar, þ.e. að draga umsóknina um aðildina að Evrópusambandinu til baka, því að það ber allt að sama brunni. Þetta er ekki einföld umsókn, þetta er beint aðlögunarferli. Verið er að opna sendiráð ESB, eins og ég nefndi, og verið er að koma með fjármagn inn í landið. Ég sat fund fyrir fulltrúa okkar í utanríkismálanefnd um daginn þar sem var til umræðu hvernig ætti að skipta 40 milljónunum til kynningarmála og hvaða hlutlausi aðili það ætti að vera sem kynnti sambandið hér á landi. Umsóknin er komin á fulla ferð. Þetta er beint aðlögunarferli. Ég sit í umhverfisnefnd og þar eru fimm eða sex frumvörp beinlínis vegna þess að Evrópusambandið gerir þá kröfu á okkur sem umsóknarríki að vera búið að lögleiða ákveðna þætti og ákveðið mál sem snerta umhverfismál. Við stöndum frammi fyrir þessu en utanríkisráðherra kemur fram með ósannindi og blekkingar og telur að um einfalt umsóknarferli sé að ræða.

Frú forseti. Það er kominn tími til að svipta hulunni af þessu öllu. Það er kominn tími til að við þingmenn og landsmenn allir hættum að sýna meðvirkni með utanríkisráðherranum, og þá sérstaklega fjölmiðlar. Við sem leyfum okkur að gagnrýna hæstv. utanríkisráðherra og Samfylkinguna í ljósi þess að þeir sjá ekkert nema Evrópusambandið, verðum jafnvel fyrir árásum frá fjölmiðlum sem eru hlynntir ríkisstjórninni. Það er mikill lýðræðishalli í landinu og á fjölmiðlum. Við verðum að standa saman um að hið sanna komi í ljós. Við verðum að standa saman um það til að fá það upp úr hæstv. utanríkisráðherra hvar málið er statt. Blekkingaleiknum verður að linna og þessi ræða mín er einmitt hluti af því.