139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[17:51]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þegar kemur að þeim fjármunum sem Evrópusambandið ver hér til kynningarmála hefur komið fram opinberlega að þetta eru mjög háar fjárhæðir. Ég hef verið í góðu sambandi við Norðmenn sem hafa þar tekið svona slag þar sem tekist hefur verið á um ólík sjónarmið um hvort Noregi sé betur borgið innan eða utan Evrópusambandsins. Það sem þessir ágætu Norðmenn segja mér og það sem þeim blöskrar er að Evrópusambandið hefur í mun ríkara mæli komið með beinni hætti að svona málum í einstökum aðildarríkjum eða umsóknarríkjum. Þeir tóku til að mynda dæmi um hvernig Evrópusambandið dældi tugum milljarða í kosningabaráttuna á Írlandi um Lissabon-sáttmálann.

Svo virðist vera sem mikill leyndarhjúpur sé yfir þessu hér og ekki bara þeim styrkjum sem Evrópusambandið setur inn. Talað er um að þeir ætli sér 160 milljónir í kynningu á þessu ári og það byggi á könnunum sem gerðar eru í samráði við utanríkisráðuneytið. Það hvílir mikil leynd yfir því hvað fer í kynningarstarfsemi og einnig hvílir leynd yfir því hvað þessi umsókn kostar því að utanríkisráðuneytið heldur engar kostnaðartölur yfir það. Enginn getur svarað þeirri spurningu, ekki var hægt að svara þessu við fjárlagagerðina og nú hafa nokkrir hv. þingmenn lagt fram þingsályktunartillögu um að Ríkisendurskoðun kafi ofan í þetta.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann: Hvernig telur hún að mögulegt sé að jafna þessa baráttu hér út? Hvernig er mögulegt að stöðva það að Evrópusambandið setji tugi eða hundruð milljóna eða e.t.v. milljarða í þennan slag? Hvernig er mögulegt að jafna þetta?