139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[17:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Einfalda og skýra svarið við spurningu hv. þingmanns um hvernig eigi að stoppa þetta evrópska fjárflæði inn í landið er það sem við ræðum núna, að draga umsóknina til baka. Þá fellur allur slíkur fjáraustur niður sjálfkrafa að sjálfsögðu.

Hitt er að krefjast þess að setja málið í frost þar til tillaga mín um þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda beri umsóknarferlinu áfram eða ekki nær fram að ganga. Það er önnur leið.

Þriðja leiðin er sú sem ég kom inn á í ræðu minni. Ég upplýsti t.d. um það hvernig sendiráð ESB vinnur. Við vitum að það er hér á landi til að skipta sér freklega af innanríkismálum. Það skiptir sér af með þeim hætti að það kostar hér útgáfu og styrkir ýmsa aðila til að fara utan til að kynna sér mál hjá Evrópusambandinu.

Um þetta snerist fyrirspurn mín til hæstv. utanríkisráðherra en þá bregður hann á það ráð að snúa út úr spurningunni og segir mig misskilja samninga og ég taki feil á samningum. Er hæstv. ráðherra svo forhertur? Hann byrjar á því að skilgreina spurninguna mína á þann hátt að ég hafi vísað í vitlausan samning og svo svarar hann spurningunni sem hann býr til upp úr minni spurningu, út í hött til að losna við að svara til um 55. gr. Vínarsamningsins um ræðissamband. Hún snýr að því að sendiráð mega ekki undir neinum kringumstæðum skipta sér af innanríkismálum þeirra landa sem þau starfa í.

Þetta er svo forkastanlegt og hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) svo til skammar að ég veit eiginlega ekki á hvaða braut sá maður er.