139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[17:55]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni varðandi að ekki skuli vera tekin afstaða í þessu máli. Á meðan þetta ferli er í gangi og ekki er búið að samþykkja tillögu hv. þingmanns um þjóðaratkvæðagreiðslu og ekki er búið að samþykkja þá tillögu sem við ræðum nú er það grafalvarlegt mál. Það er grafalvarlegt þegar menn leggja af stað í svona ferli með það að markmiði að fá lýðræðislega úrlausn með kosningu að annar aðilinn, með erlendu fé, dæli hér inn fjármunum og sé jafnvel byrjaður á því þremur árum áður en þjóðaratkvæðagreiðslan á að fara fram. Ákveðnum markhópum er til að mynda borgað fyrir að koma utan af landi suður til Reykjavíkur og svara spurningum á launum. Það var hluti af undirbúningsstarfinu fyrir fyrstu áróðursherferð Evrópusambandsins. Þetta hefur sendiherrann hér sagt sjálfur.

Er þetta eðlilegt? Er eðlilegt að Evrópusambandið dæli hundruðum milljóna og jafnvel milljörðum í þessa baráttu einhliða og þrjú ár eru í atkvæðagreiðslu? Nei, það er ekki eðlilegt, frú forseti. Ég vil hvetja hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur til að halda þessu máli áfram. Það er mjög eðlilegt að við þingmenn fáum svör við því hvort hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnin ætli ekki að stöðva þetta. Einnig þurfum við að fá upplýsingar um hvað þessi umsókn kostar. Það er jafnmikill leyndarhjúpur yfir því.