139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:10]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður flutti hér kraftmikla ræðu og ég þakka fyrir hana. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þingmanni að það var mjög óheppilegt að ekki skyldi fara fram tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Sá sem hér stendur studdi það mjög dyggilega að slík þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram.

Það er hægt að grípa víða niður í málflutningi hv. þingmanns en þar sem tíminn er naumur eru það örfá atriði sem mig langar að tæpa á. Í fyrsta lagi þegar hv. þingmaður talar um að það sé dæmalaust bull að tala um fullveldisafsal og áhyggjur í þá veru og lítil ríki og annað því um líkt. Það hefur til að mynda aukist mjög sú umræða í Þýskalandi núna að Þjóðverjar séu farnir að hafa verulegar áhyggjur af því hversu mikil völd eru að flytjast frá þýska þinginu yfir til Evrópuþingsins. Við munum eftir því þegar þýskir þingmenn komu hingað til Íslands áður en þessi umsókn fór af stað að Þjóðverjar eru í auknum mæli að kalla til sín völd. Hvað er að gerast í Bretlandi? Menn hafa áhyggjur af því að þetta sé að þróast meira og meira í þessa átt og það er einfaldlega það sem menn eru að lýsa áhyggjum sínum yfir.

Mig langar aðeins, af því að tíminn er naumur, að koma inn á það að fyrr í dag fjallaði flokksbróðir hv. þingmanns, Einar K. Guðfinnsson, um þá aðlögun sem á sér stað. Hann situr í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þar sem hafa komið skýrt fram ýmsar kröfur sem hann vill kalla aðlögun og starfsmenn og embættismenn stækkunardeildarinnar kalla aðlögun en utanríkisráðherra kallar hins vegar aðildarviðræður. Evrópusambandið sjálft talar um að orðið aðildarviðræður geti verið villandi. En mig langar að spyrja hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur hvort hún hafi kynnt sér til að mynda þá pappíra sem verið er að leggja fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, þær kröfur og spurningar sem (Forseti hringir.) verið er að svara, og á hverju hún byggi þá skoðun sína að (Forseti hringir.) ekki sé í gangi aðlögun heldur aðildarviðræður.