139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:13]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði einmitt að í ljósi þess sem væri að gerast í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum í þessu ferli væri ekki hægt að tala um viðræður heldur aðlögun. Hann sagði jafnframt og hefur sagt í landbúnaðarnefnd og víðar að það sé mjög ólýðræðislegt að fram fari grundvallarbreytingar af þessu tagi, eins og settar eru þarna upp, í ferli sem þessu af því að menn voru í samningaviðræðum.

Hann sagði jafnframt í svari sínu til mín að það væri einmitt þess vegna sem hann væri fylgjandi því að umsóknin væri dregin til baka. Í þessari umræðu var m.a. vitnað til landsfundarályktunar Sjálfstæðisflokksins þar sem skýrt er kveðið á um að umsóknin skuli dregin til baka og hann rökstuddi það með því að þetta ferli væri ekki það ferli sem lagt hefði verið af stað í.

Er þá hv. þingmaður líka sammála hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni (Forseti hringir.) um að þetta sé ólýðræðislegt ferli og rétt sé að hefja eiginlegar aðildarviðræður (Forseti hringir.) en ekki aðlögun?