139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:19]
Horfa

Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er það svo að ríkisstjórnin fer með framkvæmdarvaldið og framkvæmir það sem hér er ákveðið, það liggur ljóst fyrir. Mig langaði aðeins að minnast á það sem hv. þingmaður fór yfir í ræðu sinni og kallaði rakalaust bull varðandi fullveldisafsal. Maður verður að krefjast þess að umræðan sé málefnaleg og um leið að menn sem tala jafnákveðið um hlutina og raun ber vitni vísi þá til samhengisins í texta skjalsins sem rætt er um. Hér er verið að ræða um þá framtíðarsýn sem birtist okkur í yfirlýsingum forustumanna Evrópusambandsins, um að frekari samruni sé fram undan — það er sú tilvísun og sá kafli sem verður að lesa í heild. Vissulega höldum við því ekki fram að Evrópusambandið eins og það er núna mundi taka yfir allar þær ákvarðanir sem verið er að vísa til í lokamálsgreininni á bls. 2 heldur horfum við á þá framtíðarsýn sem er í umræðunni úti í Evrópu og við sjáum fram á að (Forseti hringir.) verði hugsanlega að veruleika. Enda ráðum við því ekki hvernig Evrópusambandið mun þróast.