139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Maður skiptir ekki um ríki eins og maður skiptir um föt eða húsnæði. Þegar við göngum í Evrópusambandið er það mjög afdrifarík ákvörðun af því að Ísland afsalar sér fullveldi sínu að einhverju leyti og það er ekki svo auðvelt að snúa til baka. Áhrif Íslendinga í Evrópusambandinu verða líklega svipuð og þau áhrif sem Raufarhöfn hefur á stjórnmálin á Íslandi, hlutföllin eru nokkurn veginn hin sömu. Hversu oft ræðum við um Raufarhöfn í þessum sal? Og hversu mikil eru áhrif Raufarhafnarbúa á stjórnmál á Íslandi? Núll. Ég fullyrði það. Það sama verður með okkur og við verðum að hugsa 100 til 200 ár fram í tímann. Þó að við verðum öll dauð mun íslenska þjóðin væntanlega lifa áfram eftir 200 ár. Og það er mikil ábyrgð að ganga í ríkjasamband af þessu tagi.