139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:47]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tala bara hreint út. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að gerður var stjórnarsáttmáli og gerðar voru málamiðlanir. Ég held að þetta sé ekki fyrsta dæmið um stjórnarsáttmála þar sem gerðar eru málamiðlanir. Ég held að við getum bæði fundið fordæmi í sögunni fyrir því að við höfum kyngt ýmsu í stjórnarsáttmála sem okkur hefur ekkert endilega hugnast hverju sinni. Þannig er það nú.

Varðandi Evrópusambandið hef ég sagt að mig skiptir það miklu máli hvað kemur út úr viðræðum vegna sjávarútvegsmálanna. Ég bind vonir við að hreyfing sé á því máli innan Evrópusambandsins en við vitum það ekki með vissu fyrr en búið er að leiða viðræðurnar til lykta. Ég tel meiri líkur en minni, ef þær niðurstöður verða fullnægjandi, að betra sé fyrir Ísland að vera meðlimur í Evrópusambandinu en standa fyrir utan það. Ég get nefnt peningamálin og gjaldmiðilsstefnuna en líka það sem ég tel skipta miklu máli; að vera í samfélagi þjóða sem við höfum mikil viðskipti og samskipti við, bæði menningarlega og efnahagslega.