139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Evrópusambandið er að breytast mikið eins og ég nefndi áðan í andsvari. Evrópusambandið breytist dag frá degi, líka í sjávarútvegsmálum. Það getur vel verið að það nýti þekkingu Íslendinga til að byrja með en svo vendi það um eftir nokkur ár og láti Spánverja fá veiðiheimildir Íslands. Evrópusambandið er á fleygiferð og breytist dag frá degi. Nú verður krísa í Grikklandi. Þá segja Þjóðverjar, sem ráða öllu í Evrópusambandinu, ásamt kannski með Bretum og Frökkum, að þeir vilji hafa áhrif á fjárlög einstakra ríkja. Þá missa aðildarríkin efnahagslegt sjálfstæði sitt.

Evrópusambandið er að þróast í átt til ríkis og Íslands verður smáhreppur þar inni. Ég gat um það áðan að áhrif Íslands yrðu þá svipuð eins og áhrif Raufarhafnar einnar á stjórnmál á Íslandi — ekki landsbyggðarinnar heldur Raufarhafnar einnar á Ísland — og þau eru núll. (Gripið fram í.)