139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:49]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ekkert stendur í stað, vonandi ekki. En ég hef ekki trú á því að Evrópusambandið breytist í sambandsríki, ég hef ekki trú á því að þungavigtaröfl innan sambandsins heimili það. En skiptar skoðanir eru um þetta og menn geta haft sitt sjónarmið í því.

Ég sagði að ég hefði ákveðnar efasemdir um forustuna innan ríkisstjórnarinnar, hvort hún hefði vilja til að klára þetta þannig að menn gætu staðið vörð um hagsmuni Íslands og talað fyrir þeim. En ég verð líka að segja að ef ég stend frammi fyrir þeim valkosti að hafa hér vinstri stjórn um ókomna tíð eða vera í Evrópusambandinu með vinstri stjórn þá vil ég frekar hafa ákveðið öryggi í Evrópusambandinu heldur en þessa gargandi forsjárhyggju sem ríður röftum í íslensku samfélagi. (Gripið fram í.)