139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:52]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi síðustu spurninguna. Jú, að sjálfsögðu en þá finnst mér hreinlegra að menn segi: Ég er alfarið á móti þessu og ég vil á öllum stigum málsins draga það til baka. Ef hv. þingmaður getur sagt mér hvort einhvern tímann verði möguleiki á því að hann ljái máls á því að ganga í Evrópusambandið þá væri fróðlegt að heyra svar hans. Ég held að þeir sem hafa talað hér og eru andsnúnir þessu ferli og vilja afturkalla það vilji yfir höfuð ekkert gera með málið sem slíkt.

Varðandi vinstri stjórnina. Já, við deilum þeirri draumsýn að vilja fella þessa stjórn sem fyrst og helst að við boðum til kosninga sem allra fyrst til að fella hana. Síðan er veruleikinn annar og ég held að þau hangi á þessum völdum eins og hundar á roði eins og við þekkjum manna best eftir að hafa séð ríkisstjórnina standa í alls kyns öðrum málamiðlunum en út af Evrópusambandinu, málamiðlunum sem kosta íslenskt samfélag stórkostlega hagsmuni. Þá er ég sérstaklega að hugsa til atvinnumálanna og hversu lítil raunveruleg atvinnuuppbygging á sér stað á vegum vinstri (Forseti hringir.) stjórnarinnar. Þess vegna þurfum við að koma (Forseti hringir.) ríkisstjórninni frá.