139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:53]
Horfa

Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er gott að geta tekið undir orð hv. þingmanns um að það eigi vissulega að vera aðalverkefni okkar allra að koma ríkisstjórninni frá.

Mig langar að ítreka spurninguna um fjárlaganefnd sem ég veit að hv. þingmaður mun koma inn á í seinna andsvari. Í ræðu hv. þingmanns kom fram að hann efast um að nægilega sterk forusta sé fyrir hendi hjá ríkisstjórninni til að halda áfram með málið, ef ég tók rétt eftir. Við erum ósammála um hvort sækja beri um aðild að Evrópusambandinu og ég get lýst því yfir fyrir mitt leyti að ég er andsnúin því að ganga í Evrópusambandið. En eru þá ekki sameiginlegir hagsmunir okkar beggja að hætta við þetta ferli sem farið er í á röngum forsendum? Annar ríkisstjórnarflokkurinn ætlar sér ekki að bakka það upp og margir hverjir draga þar lappirnar. Eru þá ekki hagsmunir okkar beggja að segja stopp? Menn geta þá farið af stað seinna á réttum forsendum ef um það skapast pólitískur vilji.