139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Varðandi fjárlaganefndina er að sjálfsögðu mikilvægt að það sé alveg ljóst hver kostnaðurinn er við ferlið allt og menn eiga ekki að hafa neitt að fela þar.

Varðandi seinni spurningu hv. þingmanns (Gripið fram í.) um forustuna í ríkisstjórn. Það er akkúrat það sem ég kom inn á áðan. Ég hef ákveðnar áhyggjur af því að hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, sama þó að allar kröfur Íslendinga í landbúnaðarmálum eða sjávarútvegsmálum verði samþykktar, muni engu að síður segja nei. Þess vegna segi ég: Hann á þá frekar að víkja. Ef hann getur ekki fylgt eftir lýðræðislegri ákvörðun þingsins um að fara í aðildarviðræður og klára þær svo að þjóðin hafi á endanum raunverulegt val um hvort hún eigi að ganga inn eða ekki, á hann frekar að víkja en að þingið dragi sig til baka. Ég hélt að við værum komin aðeins lengra með löggjafarvaldið og það hefði sitt að segja en ekki að ráðherra í ríkisstjórn geti stöðvað löglega hafið ferli.