139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:56]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Ísland hefði ámóta hlutfall í Evrópusambandinu og Grímsey á Íslandi sem er með um 90 íbúa. Á Raufarhöfn eru um 200 íbúar og þeir hefðu miklu meiri áhrif ef við miðuðum við það. Þetta er bara staðreyndin. Þess vegna er hlægilegt hvernig fólk daðrar við þá hugmynd að við höfum einhver áhrif í Evrópusambandinu. Það er skelfilegt að hlusta á hv. þingmenn suma hér daðra út og suður við þessa hugmynd. Ég ætla að fara svolítið yfir það og líka það sem hefur verið rætt hér.

Það hefur oft verið haft orð á því, virðulegi forseti, að hæstv. forsætisráðherrann okkar, Jóhanna Sigurðardóttir, væri talsmaður þeirra fátæku. Það er nú löngu búið að sýna sig að svo er ekki og þarf ekki að útlista það mjög. Svo virðist sem hæstv. ríkisstjórn miði allt við það að fátæktarmörk verði ráðandi á Íslandi til þess að fólk hafi síðan ekki dug til þess að berjast gegn því að skríða upp í vöggu Evrópusambandsins, (Gripið fram í: Gegnum hundalúguna?) ekki einu sinni í gegnum hundalúguna. Það verður ekki boðið upp á það.

Hæstv. ríkisstjórn Íslands er í dag trójuhestur í þeim efnum sem varða fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar. Hún leyfir það að flytja fjármagn inn í landið, láta það malla hér og þar í ýmsum þáttum, klíkum og hópum, og hjá embættismönnum sem hafa verið á mála í Brussel fyrir Íslands hönd og fengið Evrópubakteríuna úr eitruðum kæfubelgnum í Brussel sem byggist á því að sölsa undir sig auðlindir annarra, sérstaklega lítilla þjóða, svo þeir hafi aukabita í ísskápnum. Þannig er sagan sem við þekkjum á Íslandi um þúsund ára skeið um baráttu Breta, Hollendinga, Spánverja, Frakka og fleiri Evrópuþjóða til að sölsa undir sig auðlindir Íslands. (Gripið fram í: Hvaða?) Svo koma menn hér í dúkkulísupilsum og dansa um eins og þetta sé einhver von inn í framtíðina. Ekki fyrir Íslendinga. Það fer að skýrast æ betur að hyggilegast væri að gefa þeim sem eru haldnir þessari blindu kost á að fara a.m.k. aðra leiðina til Brussel eða í Evrópuþorp Tyrklands og setjast þar að. Þá svæfi fólk ugglaust betri svefni, þyrfti ekki að hugsa um darraðardansinn, brimsúginn og löðrið hér á Íslandi, baráttuna sem það kostar að vera Íslendingur. Nei, það á að fórna fullveldi Íslands, fórna sjálfstæðinu, og daðra eins og aulabárður við ofurveldi valdníðinga úti í Evrópu. Þetta er málið, virðulegi forseti.

Við eigum ekki að leyfa ríkisstjórn Íslands að viðhafa hér sömu vinnubrögð og tíðkast í undirheimum Ítalíu, Hamborgar, Hong Kong, New York og fleiri landa þar sem fé er ausið á venjulegt fólk til að misnota það í baráttu fyrir ákveðinni markaðssetningu. Við höfum gagnrýnt útrásarvíkingana á Íslandi fyrir að hafa ausið fé til að styrkja völd sín í samfélagi okkar. Það er með réttu. Hvað er hæstv. íslenska ríkisstjórnin að gera í dag annað en það þegar hún leyfir framgang aðlögunarferlis sem kostar morð fjár á meðan við erum eins og saklaus lömb að þreifa fyrir samningaumleitunum um ákveðna hugmynd sem þarf að skera úr um? Þetta er mergurinn málsins; misnotkun, misnotkun og aftur misnotkun.

Hver vill stofna til hjónabands með einstaklingi sem gerir það eitt að berja, lemja og vera valdníðingur? Hvað hafa Evrópuríkin gert við okkur undanfarin missiri þegar mest reyndi á annað en að berja, lemja og tuskast á íslensku þjóðfélagi eins og kengúra kynni að hoppa á litlum söngfugli? Þetta eru líkingar — en þær eru raunhæfar.

Það er skelfilegt hvernig sumir hv. þingmenn tala hér tveimur tungum. Góð dæmi eru hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sérstaklega Ragnheiður Ríkharðsdóttir sem talar ekki hreint út, þykir allt eðlilegt og sjálfsagt til skoðunar en er svo fyrst og fremst talsmaður Evrópusambandsins og inngöngu Íslands í það. Ef við þurfum að gera sitthvað í stand í stjórnsýslu okkar sem alltaf er þörf fyrir eigum við að gera það á okkar forsendum, miða við okkar reynslu, okkar markmið, og ekki gera það með peningum frá Brussel, á yfirbyggingu þess valdníðingakerfis, virðulegi forseti.

Ef evran hrapar, sagði hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, er Ísland í voða. Ef evran hrapar, segi ég, hrapar Evrópusambandið. Það mun auðvitað gera það nákvæmlega eins og sagan sýnir, nákvæmlega eins og gamla Sovét, það mun hrynja líklega í verri parta en frumeindir sínar. Við eigum ekkert erindi í þennan hjúskap.

Kosturinn við það að samningaferlið fór af stað var að fá hreint út hvað Evrópusambandið vill ganga langt. Það tala margir eins og Evrópusambandið sé að ganga í Ísland. Hvaða rugl er þetta? Hvaða málflutningur er þetta? Þetta er blind ást á Evrópu og þá eiga menn ekki að vera að hugsa um Ísland. Þeir eiga bara að snúa sér að ástmegi sínum, Evrópusambandinu.

Eigum við Íslendingar að líða það að Evrópusambandið kaupi Íslendinga til fylgis? Nei, við eigum ekki að líða það. Við skulum ganga þessa leið að mínu mati og klára samningaferlið með því að flýta því og draga fyrst fram mestu ágreiningsefnin svo ekki sé verið að eyða tíma í það sem skiptir öllu máli og varðar auðlindir okkar. Evrópusambandið stefnir í og fer ekkert leynt með það að semja síðast um það sem skiptir mestu máli, fiskimið Íslands sem eru eini kærleikurinn sem Evrópusambandið býr yfir í garð Íslendinga.

Hér var sagt að gott væri að fara í aðildarviðræður því að við þurfum að gera margt sem þarf að gera á Íslandi miðað við menningarveldið í Evrópu. Við eigum fyrst og fremst að rækta okkar menningu með metnaði, með því að horfa út fyrir garðinn og ekki bara til Evrópu, heldur um þessa jörð sem við búum á. Þar er víða merkileg menning og við getum lært af mörgum. En íslensk menning er okkar lykill og við getum ekkert treyst á Evrópulínuna, ekki frekar en bandarísku línuna sem sýndi okkur þá lítilsvirðingu að hleypa í neyðarástand atvinnulífi í nokkrum byggðum Íslands með því að hverfa burt í skjóli nætur á einni nóttu. Þetta er veruleiki sem blasir við okkur. Við skulum halda okkar reisn, okkar möguleikum (Forseti hringir.) og okkar styrk.