139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

synjun forseta Íslands á Icesave-lögunum.

[14:01]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir að þessi umræða komst hér að í upphafi þingfundar. Málefnið er mikilvægt og mig langar til að byrja á því að segja að fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar við synjun forsetans sýna að ríkisstjórnin var óundirbúin í þessu máli eins og í svo mörgum öðrum stórum og mikilvægum málum. Hún var óundirbúin fyrir fyrri synjun forsetans sem þó mátti sjá fyrir með nokkrum líkindum. Hún var líka óundirbúin fyrir dóm Hæstaréttar í gengislánamálunum. Viðbrögðin við niðurstöðu og ákvörðun Hæstaréttar í kærumáli vegna stjórnlagaþingskosningarinnar sýndu líka að ríkisstjórnin var óundirbúin og ég sé ekki betur en að það sé eitt helsta einkenni viðbragða ríkisstjórnarinnar við synjun forsetans nú að hún hafi verið óundirbúin.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur lýst því svo að hann hafi forundrast þessa ákvörðun. Það voru stjórnarflokkarnir sem í umræðu um þetta mál treystu sér ekki til að mæla með því að málið gengi til þjóðarinnar. Stjórnarandstöðuflokkarnir, þar á meðal Sjálfstæðisflokkurinn, vildu að málið gengi á endanum til þjóðarinnar vegna þess hver saga málsins er.

Þessi fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar fá mann til að velta því fyrir sér hvort stjórnarflokkarnir annaðhvort treysti þjóðinni alls ekki til að eiga síðasta orðið í málum af þessum toga, þeir treysti ekki fólki til að taka upplýsta ákvörðun, eða að ríkisstjórnin treysti sér ekki til að standa að kynningu á málinu. Reyndar er kynning á málinu á ábyrgð Alþingis, en getur það verið þannig að stjórnarflokkarnir treysti því ekki að fólk geti kynnt sér allar nauðsynlegar upplýsingar og öll nauðsynleg gögn til að geta tekið upplýsta ákvörðun? Allt er þetta frekar dapurlegt vegna þess að það er sjónarmið stórs minni hluta, skulum við segja, í þinginu að þjóðin sé einmitt í færum til að taka upplýsta ákvörðun um þessi mál. Út á það ganga lögin um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna að við getum lagt fyrir þjóðina mál af þessum toga og undirbúið það þannig að almenningur geti tekið ákvörðun á grundvelli góðrar upplýsingagjafar.

Viðbrögð hæstv. fjármálaráðherra að öðru leyti gefa til kynna að hann sé andvígur beitingu 26. gr. eins og forsetinn beitir henni nú, að það eigi ekki að vera í höndum eins manns að taka ákvörðun um þetta. Undir það get ég tekið að vissu marki. Ég get tekið undir að mér finnst óeðlilegt að endanleg ákvörðun um að skjóta máli eins og þessu til þjóðarinnar sé í höndum eins manns. En það hefur ekki staðið á okkur í Sjálfstæðisflokknum að taka reglurnar um þetta til endurskoðunar. Þetta mál var uppi á borðum í starfi stjórnarskrárnefndar á árunum 2005–2007 en þá voru það önnur öfl en þau sem þá sátu í ríkisstjórn sem komu í veg fyrir að sú vinna hefði einhvern framgang. Þegar málið var til umræðu í þinginu í kjölfarið minnist ég þess að margir þingmanna gengu úr þingsal undir ræðu hæstv. forseta þingsins á þeim tíma er hann gerði athugasemd við það hvernig 26. gr. hafði í fyrsta skipti í þingsögunni verið beitt.

Mig langar af þessu tilefni til að bera það undir hæstv. fjármálaráðherra hvort það sé ekki réttur skilningur hjá mér að hann telji þörf á breytingu á 26. gr., að við þurfum að breyta henni úr þeirri mynd sem hún er í í dag. Þetta gengur ekki og það þarf að afnema 26. gr. í þeirri mynd sem hún er í í dag.

Loks langar mig til að segja í lok ræðu minnar að ég er algerlega andvígur því að í jafnstóru máli og við erum hér að ræða um blandi ríkisstjórnin einhverjum öðrum málum inn í kosninguna um Icesave. Það er alveg nóg fyrir fólk að þurfa að afla sér gagna og kynna sér þá valkosti sem við stöndum nú frammi fyrir í þessu máli. Þeir eru að mínu áliti alveg skýrir þrátt fyrir þá umræðu sem fór fram í þinginu um að þriðja leiðin, að semja að nýju, væri líka í boði. Það eru alveg skýrir valkostir. Fólk þarf að kynna sér þá og það er fráleitt að efna til (Forseti hringir.) nýrra kosninga um stjórnlagaþing ofan í þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-samningana.