139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

synjun forseta Íslands á Icesave-lögunum.

[14:12]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Nokkuð hörð umræða fór fram á Alþingi í síðustu viku um það hvort vísa ætti Icesave 3 samningunum til þjóðarinnar. Það var með naumindum fellt á vettvangi þingsins. Nær allir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna vildu ekki að þjóðin kæmi að lokaákvörðunartöku í þessu máli og þess vegna er það þakkarvert, og ég þakka forseta lýðveldisins fyrir þá ákvörðun sem hann tók, að þjóðin fái að eiga lokaorðið í þessu mikilvæga máli. Þetta mál er mjög sérstakt eins og hér hefur komið fram. Þjóðin kom að því í fyrra þar sem hún hafnaði nær 100%; 98% þeirra sem tóku afstöðu í þeirri kosningu höfnuðu þeim samningum sem ríkisstjórnin vildi þá ná fram.

Ég tek undir með hv. þingmönnum um að nú sé mikilvægt að haga orðum í hóf og að mikilvægi upplýstrar umræðu sé mikið. Nú er boltinn hjá þjóðinni, Alþingi hefur sagt sitt en þjóðin mun eiga lokaorðið. Ef við meinum eitthvað með því að vilja breyta umræðuhefðinni í íslenskri pólitík eigum við alþingismenn að ganga á undan með góðu fordæmi og haga umræðunni þannig að hún sé sem mest upplýsandi. Þetta er og hefur verið okkur mjög erfitt mál. Ég þakka enn og aftur fyrir að þjóðin mun fá að eiga lokaorðið í þessu umdeilda máli sem hefur farið mjög illa með íslenskt samfélag allt frá árinu 2008. Þess vegna skulum við leggjast á eitt og sjá til þess að þjóðin fái nægan tíma til að ákveða sig og að kynningin verði til fyrirmyndar. Ég hafna því algjörlega sem hæstv. forsætisráðherra sagði á sunnudaginn, að það ætti að drífa þetta mál af. (Forseti hringir.) Fólk þarf að fá góðan tíma til að kynna sér þetta stóra mál enda er hér um mikla hagsmuni að ræða.