139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

synjun forseta Íslands á Icesave-lögunum.

[14:24]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Nú er Icesave komið til þjóðarinnar, þökk sé forseta vorum og því öryggisákvæði sem er í stjórnarskránni, sem sagt 26. gr., að vísa máli til þjóðarinnar vegna þess að hann taldi sér ekki fært að skrifa undir þennan samning. Nú verður hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnin öll að taka sig saman í andlitinu og kynna fyrir þjóðinni þau mál sem eru undirliggjandi í Icesave-málinu sem við þingmenn höfum ekki fengið aðgang að.

Ber þar fyrst að nefna þá frétt sem kom í fjölmiðla daginn eftir að samningurinn var samþykktur hér á þingi, hvar Icesave-peningarnir liggja. Slitastjórn Landsbankans veit það. Það hefur birst í fréttum að tæplega 200 milljarðar kr. runnu til fyrrverandi eigenda Iceland sem Baugur, Fons o.fl. áttu, skuldir félagsins eru jafnframt himinháar og eru þær tilkomnar vegna arðgreiðslu til eigenda félagsins á árinu 2007. Síðan fengu fyrrum eigendur kauprétt í Iceland sem síðan var veðsettur á nýjan leik. Á árinu rennur síðan Iceland inn í Landsbankann. Iceland er núna ein aðalgreiðslumyntin sem gamli Landsbankinn er að nota í þessu máli.

Hæstv. fjármálaráðherra verður líka að upplýsa það hvaða arðgreiðslur eða eignir liggja að baki skuldabréfinu upp á 280 milljarða sem var fært inn í nýja Landsbankann úr þrotabúi gamla Landsbankans. Þarna er um háar upphæðir að ræða og þessu verður ríkisstjórnin að svara.

Vonandi kemur skýrsla Seðlabankans um skuldastöðu þjóðarinnar út á næstu dögum svo að Íslendingar allir geti kynnt sér hver skuldastaðan raunverulega er. Að lokum verður ríkisstjórnin að upplýsa hvort Icesave sé skiptimynt þess að Ísland gangi í Evrópusambandið eins og (Forseti hringir.) hollenskir fjölmiðlar vilja meina. Já, spurningarnar eru margar en svörin frá ríkisstjórninni verða að vera langtum fleiri.