139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

synjun forseta Íslands á Icesave-lögunum.

[14:26]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þingið hlýtur að líta aðgerðir forsetans og röksemdafærslu hans fyrir synjun staðfestingar á Icesave-lögunum alvarlegum augum. Forsetinn grípur inn í vinnu þingsins við endurreisn efnahagslífsins og notar þau rök fyrir synjun sinni að rétt sé að minni hluti þings, einkum vegna samsetningar hans, eigi nú að ráða för. Reyndar byggði hann röksemdafærslu sína helst á því að þetta þing hefði ekki umboð til að afgreiða málið og því skipti engu að 70% þingmanna hefðu greitt atkvæði með málinu. Allt hafði verið gert til að tryggja að þessir samningar gætu leyst málið og eytt óvissu, brugðist var við helstu gagnrýni sem fyrri samningar fengu, ráðin var bót á vafaatriðum, samninganefnd var skipuð á þverpólitískri sátt og víðtækur stuðningur var á Alþingi um að ljúka deilunni með fyrirliggjandi samningum.

Forsetinn virðist hafa hunsað umfjöllun þingsins um málið þegar hann vitnar í umsögn Indefence á blaðamannafundinum um að bæta þurfi ákvæði kennt við Ragnar Hall í samningana. Hefði forsetinn lesið álit meiri hluta fjárlaganefndar og fylgiskjal með því, undirritað m.a. af Ragnari Hall, hefði hann vitað að þarna er um misskilning hjá Indefence að ræða.

26. gr. stjórnarskrárinnar hefur ekki verið beitt fyrr en núverandi forseti beitti henni árið 2004, aftur 2010 og nú, um ári síðar. Viðmið og rök hans eru breytileg frá máli til máls. Sú sem hér stendur telur að forsetinn hafi með ákvörðun sinni sniðgengið fulltrúalýðræðið og anda stjórnarskrárinnar um leið. Hvað sem mönnum finnst um þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg mál og umgjörð um þær er staðan sú að forsetinn virðist einn og sér ætla að breyta stjórnskipan Íslands. Á leið okkar út úr efnahagslægðinni leggur forsetinn stein í götu og stuðlar að stjórnmálalegum óstöðugleika þar sem ekki er hægt að treysta á að ákvörðun meiri hluta Alþingis haldi.