139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

synjun forseta Íslands á Icesave-lögunum.

[14:28]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég held að rétt sé að óska þjóðinni til hamingju með aðra þjóðaratkvæðagreiðsluna í sögu íslenska lýðveldisins. Ég fagna henni því að það mál sem um ræðir er umdeilt og það hefur mikil áhrif á þjóðina hvernig sem það fer. Ég treysti þjóðinni fyrir þeirri ákvörðunartöku. Það þarf að gefa þjóðinni tíma og það verður að tryggja að hún fái hlutlausar upplýsingar, og stjórnmálamenn verða að halda sig á hliðarlínunni. Við fengum okkar tækifæri og ég vil benda á orð forseta Íslands í Silfri Egils um daginn þar sem hann sagði að nú þyrfti, og þetta var fyrir atkvæðagreiðsluna, sá meiri hluti þings sem vildi samþykkja Icesave að sannfæra þjóðina. Það var ekki gert. Málið var keyrt í gegn með miklum hraða og jafnvel haldnir næturfundir í þinginu, kvöldið fyrir atkvæðagreiðsluna. Af þessu þurfa stjórnvöld að læra, þeim ber skylda til að tala við þjóðina og upplýsa hana og veita henni allar þær upplýsingar og tíma sem þarf. En ég vil vara við því að í þessu máli, eða í öðrum málum sem fara í þjóðaratkvæði, verði líf ríkisstjórnarinnar sett að veði. Þannig á það ekki að vera, við eigum að geta sett hin ýmsu mál í þjóðaratkvæði án þess að tengja það lífi þeirrar ríkisstjórnar sem situr að völdum hverju sinni.