139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

synjun forseta Íslands á Icesave-lögunum.

[14:33]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir með málshefjanda, ég bind sannarlega vonir við að ekki aðeins takist okkur að leiða þetta mál til lykta þannig að um það verði sæmileg sátt, menn verði sáttir og hlíti niðurstöðunni, og jafnframt að okkur takist að standa saman að framkvæmd kosninganna þannig að það fari allt vel úr hendi. Ég vona náttúrlega svo sannarlega að lögin verði samþykkt og haldi framtíðargildi sínu.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir spurði um skuldastöðu þjóðarbúsins. Mér vitanlega er skýrsla Seðlabankans komin út. Alla vega hef ég haft hana alllengi undir höndum. Ef hv. þingmaður veit það ekki fyrir get ég alla vega glatt hana með því að upplýsa að þar eru þær ánægjulegu niðurstöður að Seðlabankinn leiðir sterk rök að því að hrein skuldastaða þjóðarbúsins verði til muna hagstæðari þegar rykið hefur sest og gömlu bankarnir hafa verið gerðir upp en hún var á árunum fyrir fjármálahrunið. Séu skuldir eins stórfyrirtækis í eigu erlendra aðila að mestu teknar til hliðar mun væntanlega þurfa að fara ein 25 ár aftur í tímann til að finna hagstæðari hreina skuldastöðu fyrir þjóðarbúið en þá sem líklegt er (Gripið fram í.) að komi út úr rykinu og það er mjög ánægjulegt að svo verði.

Varðandi 26. gr. enn og aftur tek ég að sjálfsögðu undir það, ég held að við þurfum að fara mjög vandlega yfir hvernig við viljum að þessir hlutir verði til frambúðar. Það er væntanlega ekki ætlan okkar eða ósk að stjórnskipunin þróist tilviljanakennt eða á grundvelli túlkana, heldur að gengið sé frá því með afar skýrum hætti því að ef það er eitthvað sem þarf að vera á hreinu í þingræðis- og lýðræðisríki eru það grundvallarleikreglurnar þannig að ekki komi upp ágreiningur og deilur um að nákvæmlega sé farið eftir þeim. Það er einhver hættulegasti ágreiningur sem risið getur í lýðræðissamfélagi ef slitnar sundur friðurinn um grundvallarleikreglur lýðræðisins. (Forseti hringir.) Þess vegna eiga allir að umgangast þær mjög vel, bæði í eintölu og fleirtölu. (Gripið fram í: … eftir þessa ræðu …)